Óvissa með sjóstangaveiði

Deila:

Óvíst er hvort nokkur sjóstangaveiðimót verði haldin í ár en Fiskistofa hefur einungis veitt tveimur af átta sjóstangaveiðifélögum heimild til að halda slík mót. Landssamband sjóstangaveiðifélaga hefur vísað málinu til ráðuneytisins samkvæmt frétt á ruv.is

Fiskistofu ber að taka ákvörðun um það árlega hvort veita skuli sjóstangaveiðifélögum heimild til að halda sjóstangaveiðimót, og veiða allt að 200 tonn án kvóta, en einungis tvö af átta félögum hafa fengið slíka heimild í ár.

Sífellt strangari reglur um mótin

Stefán Baldvin Sigurðsson, formaður Landsambands sjóstangaveiðifélaga, segir að Fiskistofa geri sífellt strangari kröfur um mótshaldið sem landssambandið fallist ekki á. Einkum er deilt um ráðstöfun ágóðans sem hlýst af því að selja fiskinn sem veiðist á mótunum, sem félögum er, samkvæmt reglugerð, heimilt að nota til að standa straum af mótskostnaði. „Það er í raun túlkunin á því sem er orðin meira og meira íþyngjandi. Fiskistofa vill ákveða hvað telst kostnaður við mót og hvað ekki og túlkar það mjög þröngt,“ segir Stefán Baldvin.

Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri, bendir á að stofnunin eigi að hafa eftirlit með því að farið sé að reglum og hluti af því sé að kalla eftir upplýsingum, sem einungis tvö veiðifélög hafi skilað. „Annars vegar fáum við ársreikning og hins vegar uppgjör og við þurfum að geta gengið úr skugga um það að það sé samræmi þarna á milli,“ segir Eyþór.

Lítið útlit fyrir sjóstangaveiði að svo stöddu

Landssambandið hefur vísað málinu til ráðuneytisins og ef ekki tekst að leysa deiluna þá er útlit fyrir að lítið verði um sjóstangaveiði í sumar. „Við höfum enga heimild til þess að fara og veiða eða halda nein mót og á meðan sú heimild fæst ekki þá getum við ekki haldið nein mót,“ segir Stefán Baldvin.

 

Deila: