Veiða þúsund tonn af hörpuskel í tilraunaskyni

Deila:

„Núna á þessu ári komum við til að veiða þúsund tonn af skel, sem er ansi langt frá því sem var á árum áður. Jafnstöðuaflinn hér í Breiðafirði var um 8.500 tonn á ári frá 1992 til 2003. Við erum því langt frá því enn. Þó við höfum ekki alveg náð að kortleggja þessi gömlu útbreiðslusvæði skeljarinnar á árum áður, þá verður vonandi sett í það meiri vinna á komandi misserum  að finna út hvar hún kann að leynast annars staðar.“

Þetta segir Sigurður Ágústsson, framkvæmdastjóri Agustson í Stykkishólmi. Fyrirtækið var á sínum tíma frumkvöðull í veiðum og vinnslu á hörpuskel. Veiðarnar lögðust af skömmu eftir síðustu aldamót vegna hruns í stofninum vegna sýkingar. Rannsóknir hafa verið stundaðar síðan þá í samvinnu Hafró og handahafa aflahlutdeildar í hörpuskel og tilraunaveiðar verið stundaðar síðustu haust.

Sigurður Ágústsson StykkishólmiTímabundið verkefni

„Veiðarnar byrjuðu í byrjun september í kjölfarið af árlegum leiðangri sem við förum í með Hafró. Ég reikna með því að við munum klára þetta núna fljótlega í kringum áramótin. Það eru aflahlutdeildarhafar sem standa að þessum rannsóknum og tilraunaveiðum í samstarfi við Hafró. Horft er á þetta sem tímabundið verkefni. Að þeim loknum sér Hafró sér vonandi fært að koma með veiðiráðgjöf um skelina. Aflaregla um veiðarnar er í endurskoðun og mun byggjast á tilraunaveiðunum að einhverju leyti. Við erum að veiða á nokkrum svæðum og við teljum okkur vita með nokkurri vissu hve mikill þéttleiki skeljarinnar er á þessum svæðum. Þannig verður aflareglan mismunandi eftir svæðum. Hún fer allt frá 4% minnst upp 12% mest af áætluðu heildarmagni á svæðinu. Við erum að reyna að átta okkur á áhrifum þessa veiðiálgas á sjálfbærni svæðanna, hvort 12% eða 4% sé hæfilegra, eða eitthvað þar á milli,“ segir Sigurður.

Augustson, Þórsnes, Fiskiðjan Skagfirðingur og tveir minni aðilar eiga hlutdeild í skelinni. Bátarnir eru Hannes Andrésson frá Fiskiðjunni og Leynir. Skelin er öll unnin hjá Augustson. Þegar veiðibannið skall á var vinnslunni lokað en gengið frá þannig að hægt væri að byrja aftur, þegar veiðar gætu hafist á ný. Nú er skelin unnin þar.

Stöðvun veiðanna mikið áfall

„Fyrir þetta fyrirtæki var skelin burðarásinn í starfseminni í um 30 ár og því var áfallið mikið fyrir okkur þegar veiðarnar voru stöðvaðar en ekki síður fyrir allt samfélagið hér. Það voru margir sem höfðu vinnu, bæði beint og óbeint af skelveiðunum og vinnslunni. Fólksfækkunin í Stykkishólmi sýnir berlega hversu mikið þetta áfall var. Fyrirtækið hafði áður byrjað í rækjuvinnslu áður en skelin hvarf, en þeirri vinnslu var síðar hætt þar sem markaðsaðstæður voru mjög erfiðar og hvorki veiðar né vinnsla stóðu undir sér. Það sem kom í raun og veru fyrir skelina var vinnsla á saltfiski. Við gerðum ákveðnar breytingar hjá okkur hér og settum upp saltfiskverkun í tengslum við línuútgerðina okkar, sem við höfum haldið áfram að byggja upp og efla. Í dag gerum við Gullhólma út á línu í krókaaflamarkskerfinu. Þegar Leynir hættir á skelinni mun hann fara á dragnótarveiðar og afla hráefnis fyrir vinnsluna eins og Gullhólmi.“

Á sínum tíma komu bætur til þeirra fyrirtækja sem áður stunduðu veiðar og vinnslu á skel og rækju í formi botnfiskveiðiheimilda. Sigurður segir að verði þær bætur teknar til baka vegna þess að skelveiðar geti hafist á ný, yrði það mikið áfall. Mikill kostnaður fylgi þeim tilraunaveiðum, sem séu stundaðar í dag. „Við erum að reyna að leggja okkur fram um að standa að þessu eins vel og hægt er, en það kostar mikla þolmæði að bíða eftir að skelin komi upp á ný og hægt verði að hefja veiðar af krafti. Ég treysti  því að stjórnvöld sýni því skilning að við erum hér að reyna að sýna ákveðna samfélagslega ábyrgð og við þurfum að fara okkur hægt. Það mun taka okkur nokkur ár að koma undir okkur fótunum í skelinni aftur.

Skelin er nú seld inn á tvo markaði, annars vegar í Norður-Ameríku og svo Frakkland, sem hefur alltaf verið mikilvægur markaður fyrir skelina. Norður-Ameríka er það líka svo það er gott að geta unnið beggja vegna Atlantshafsins í markaðssetningu á skelinni á ný.“

Hörpuskel hendur

Árið byrjaði ekki vel

Ýmis vandi hefur verið í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á þessu ári á sama tíma og há veiðigjöld leggjast á útgerðina. „Þetta ár byrjaði ekki vel með verkfalli og tilheyrandi sársauka sem fylgdi styrkingu krónunnar. Við misstum út mjög mikilvægan tíma fyrir okkur. Meðal annars í hörpuskelinni en við höfðum ætlað okkur að klára þessar tilraunaveiðar í janúar 2017, en út af verkfallinu vorum við kannski að taka á móti skel á þeim tíma sem höfðum ekki kosið út af nýtingu og þess háttar. Þá eru janúar og febrúar að vanda dýrmætir mánuði í saltfiskinum og þeir töpuðust nú. Þetta var því erfið byrjun en það er orðinn ágætis gangur í dag. Saltfiskmarkaðurinn er á uppleið og verðin þar fara hækkandi og það  gengur vel hjá okkur að veiða og vinna skelina þessa dagana.

Við fjárfestum í bát á árinu í þeim tilgangi að styðja betur við þær tilraunaveiðar sem verið hafa í gangi á skelinni. Við útbjuggum þann bát nokkuð vel.  Upprunalega hét þessi bátur Reykjaborg en heitir núna Leynir SH 120. Hann dregur nafn sitt af vík sem er hér fyrir innan við Skipavík. Þar tíndi faðir minn jurt sem hann hafði mikið dálæti á og heitir umfeðmingur og dreifði um allan bæ. Við breyttum bátnum talsvert þannig að hann virkar vel með skelplóginn. Við settum í hann fjölgeislamæli, sem hjálpar til að kortleggja botninn, botnhörkuna og finna betur út samnefnara á milli þeirra svæða sem við erum að veiða skel á í dag og mikill þéttléttleiki er og svo hvar hún kynni að liggja annars staðar. Reyna að tengja saman botnlag og útbreiðslu og hverjar sé kjöraðstæður fyrir skelina,“ segir Sigurður en svo eru það veiðigjöldin:

Pólitískur óstöðugleiki

„Vissulega eru veiðigjöldin há og slæmt að þau skuli vera reiknuð með þeim hætti sem nú er. Þó svo menn vildu leggja til hliðar þegar vel árar, held ég að fáir hafi gert sér grein fyrir því bakslagi sem komið hefur í rekstur útgerðar og vinnslu á undanförnum tveimur árum. Annars vegar er það gengið sem hefur þýtt gríðarlegt tekjutap fyrir útveginn og svo má ekki gleyma launahækkunum, sem hafa verið mjög erfiðar fyrir okkur í vinnslunni. Þannig leggst þetta allt á eitt með að gera þennan rekstur frekar þungan mundi ég segja. Fyrir utan þetta hefur pólitískur óstöðugleiki fylgt sjávarútveginum undanfarin ár. Maður kippir sér kannski minna upp við það núna en áður, því þegar illa gengur hjá okkur erum við látnir í friði, en svo beinast að okkur öll spjót um leið og einhver fær það á tilfinninguna að það sé einhver afgangur. Þá vantar ekki hugmyndirnar um hvernig eigi að taka hann af okkur.

Stinga höfðinu í sandinn

Í ljósi allra aðstæðna er svolítið sérkennilegt að sjávarútvegurinn eigi stöðugt að borga fyrir aðganginn að auðlindinni meðan aðrar atvinnugreinar þurfa ekkert að borga fyrir sinn aðgang að öðrum auðlindum. Þá hlýtur það að vera umhugsunarefni að keppinautar íslensks sjávarútvegs í nágrannalöndunum greiða mjög lítið eða ekkert auðlindagjald og njóta jafnvel ríkisstyrkja. Þannig er samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja á mörkuðum erlendis skert verulega. Eina eðlilega leiðin í þessu á að vera sú að taka greiðslurnar í gegn skattkerfið í takti við afkomuna eins og gert er í öðrum atvinnugreinum.

Veiðigjöldin gera það ekki. Þau leggjast þyngra á smærri fyrirtækin og leiða einfaldlega til frekar samþjöppunar. Stjórnmálamenn virðast stinga höfðinu í sandinn, þegar þeim er bent á þá staðreynd. Ef menn hætta að fá einhvern arð út úr þeim rekstri sem þeir stunda, er lítið að gera annað en að selja og geta bara þeir stóru keypt. Þetta er staðreynd í sjávarútvegi í og er að gerast alls staðar í kringum okkur. Stjórnmálamenn tala fyrir  nýliðun og litlum og meðalstórum fyrirtækjum vegna þess að hljómar  vel, en þeir meina ekkert með því. Meðan veiðigjöldin eru eins og þau eru og afkoman eins hún er í dag hverfa þessi fyrirtæki,“ segir Sigurður Ágústsson.

Viðtalið birtist fyrst í Ægi. Myndir og texti: Hjörtur Gíslason

 

 

 

Deila: