Togararnir fiska vel

Deila:

Segja má að togarar Síldarvinnslunnar hafi aflað vel að undanförnu. Að vísu hefur lítið aflast á Austfjarðamiðum en skipstjórarnir á Barða NK og Gullveri NS telja að nú sé fiskur að ganga á hefðbundin togaramið eystra.

Ísfisktogarinn Barði NK landar 110 tonnum í Neskaupstað í dag og er ýsa og þorskur uppistaða aflans. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar, að aflinn hafi fengist í Lónsbugtinni og þar hafi verið jöfn og góð veiði allan túrinn. Barði mun halda á ný til veiða kl. 15 í dag.

Ísfisktogarinn Gullver NS var að taka síðasta hol veiðiferðarinnar á Papagrunni í morgun. Jónas P. Jónsson skipstjóri segir að aflinn sé um 106 tonn eða 350 kör. „Við byrjuðum á að fara vestur kanta í karfaleit en síðustu einn og hálfan eða tvo sólarhringana vorum við í Lónsbugtinni og fengum þar ýsu og þorsk. Við vorum að leggja af stað heim til Seyðisfjarðar með fullt skip,“ sagði Jónas.

Frystitogarinn Blængur NK kom til Akureyrar í morgun og mun landa þar. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að aflinn sé 13.000 kassar eða um 530 tonn upp úr sjó. „Við vorum mest í Víkurálnum og uppistaða aflans er ufsi og karfi. Það gekk afar vel að veiða allan túrinn og það slitnaði aldrei hjá okkur í vinnslunni. Við munum stoppa á Akureyri þessa vikuna og það verður unnið að lagfæringum á millidekkinu. Það eru nokkrir hnökrar þar sem þarf að sníða af. Við höldum síðan til veiða á sunnudagskvöld og þá verður farið í úthafið – haldið til úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg,“ sagði Bjarni Ólafur.

Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað afar vel að undanförnu og lönduðu bæði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Bergey fer í slipp í dag til hefðbundins viðhalds en Vestmannaey hélt á ný til veiða síðdegis í gær og er nú að veiðum á Öræfagrunni.
Á myndinni er Blængur NK. Ljósm. Hákon Ernuson

Deila: