Verkefnastjóri Háskólaseturs Austfjarða ráðinn

Deila:

Að undanförnu hefur verið unnið að því að koma á fót Háskólasetri Austfjarða í nánu samstarfi við Háskólann á Akureyri. Síldarvinnslan hefur tekið virkan þátt í undirbúningsstarfinu og hefur Hákon Ernuson starfsmannastjóri fyrirtækisins átt sæti í stýrihópi um Háskólasetrið. Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Christoph_Merschbrock

Nú hefur verkefnastjóri fyrir Háskólasetrið verið ráðinn. Það er Christoph Merschbrock og mun hann hefja störf 1. ágúst nk. Christoph lauk Dipl.-Ing. í byggingaverkfræði frá Hochschule Ostwestfalen-Lippe í Þýskalandi og meistaragráðu í byggingaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess hefur hann lokið doktorsprófi í Information Systems frá Háskólanum í Agder í Noregi.

Christoph hefur starfað sem lektor í Háskólanum í Jönköping í Svíþjóð en var áður lektor í Oslo and Akershus University College. Hann starfaði sem tæknimaður og verkefnastjóri hjá Ístaki á árunum 2005-2010. Samhliða störfum sínum við Háskólasetur Austfjarða mun Christoph sinna rannsóknastörfum og kennslu við Háskólann í Jönköping.

Christoph Merschbrock er kvæntur Svölu Skúladóttur frá Neskaupstað. Þau eiga þrjú börn.

 

Deila: