Rannsaka flekk af dauðum kolmunna

Deila:

Frönsk og evrópsk yfirvöld rannsaka hvað olli því, að mikið magn af dauðum kolmunna fór úr nót risaskipsins FV Margiris sem var við veiðar í franskri lögsögu í Biskajaflóa á fimmtudag. Út frá myndum og myndskeiðum sem birtar hafa verið af fiskhræjunum fljótandi á yfirborðinu í einum stórum flekk hefur verið áætlað að minnst 100.000 fiskar hafi þarna farið forgörðum. Frá þessu er greint á ruv.is

Marigris er í eigu hollenskrar útgerðar en siglir undir litháískum fána. Fulltrúar útgerðarinnar fullyrða að stórt gat hafi komið á risavaxna flotvörpuna sem notuð er við veiðarnar. Slíkt gerist sjaldan, en gerist þó, segir í yfirlýsingu frá þeim. Umhverfisverndarsamtökin Sea Sheperd, sem birtu myndbandið af kolmunnahræjunum, draga þetta í efa og halda því fram að um vísvitandi brottkast sé að ræða.

Annick Girardin, sjávarútvegsráðherra Frakklands, segir myndirnar sláandi og í færslu á twitter segist hún hafa beðið fiskistofu þeirra Frakka að rannsaka málið. Virginijus Sinkevicius, umhverfismálastjóri Evrópusambandsins, hefur líka krafist ítarlegra upplýsinga og gagna um málið. Verksmiðjutogarinn FV

Margiris er sagður næst-stærsta fiskiskip heims. Flotvörpurnar sem notaðar eru við veiðarnar eru allt að kílómetra langar, segir í frétt The Guardian, og allur afli er unninn um borð. Skipið var enn við veiðar í Biskajaflóa á föstudag og fulltrúar útgerðarinnar segja að fiskurinn sem fór í sjóinn á fimmtudag verði dreginn frá kvóta skipsins

Deila: