Eigandi Arnarlax vill kaupa meirihluta í Arctic Fish
Frá því er greint á SalmonBusiness.com að norska laxeldisfyrirtækið Salmar hafi gert tilboð í annað norskt fyrirtæki á sama sviði, NTS, upp á 1,5 milljarð evra. SalMar á 51% í Arnarlaxi og NTS á 70% hlutafjár í Norway Royal Salmon sem aftur á 51% í Arctic Fish.
Í fréttinni segir að hvatinn að yfirtökutilboðinu séu samlegðarmöguleikar sem felast í þeim eldisfyrirtækjum sem eru í eigu fyrirtækjasamsteypanna bæði í Noregi og á Íslandi. Meðal þess sem horft er til er sameining Arnarlax og Arctic Fish. Ávinningur af sameiningunni er sagður verða bæði betri árangur í framleiðslunni og lægri framleiðslukostnaður.
Fram kemur að eigendur að 23,6% hlutafjár í NTS hafi samþykkt tilboðið og að eigendur að 26,5% til viðbótar hafi gefið vilyrði fyrir samþykki sínu með fyrirvara um afkomu NTS á fjórða ársfjórðungi 2021. Samtals eru því eigendur að 50,1% sem styðja tilboðið. Eins og staðan er þá er líklegt að því verði gengið, en ekkert er víst fyrir en samningar liggur fyrir.
Kaupverðið yrði greitt 20% með peningum og 80% með hlutabréfum í SalMar. Hlutabréfin eru verðlögð samkvæmt fréttinni þannig að í NTS er það keypt á 24 norskar krónur per hlut en í SalMar á 120 norskar krónur.
Frétt af bb.is