Minna mælist af þorski

Deila:

Stofnvísitala þorsks er 5% lægri en meðaltal áranna 2012-2017, þegar vísitölur voru háar. Vísitölur ufsa, gullkarfa, löngu og langlúru eru háar miðað við síðustu þrjá áratugi. Vísitölur ýsu, steinbíts, keilu, skarkola, þykkvalúru og grásleppu er nú nálægt meðaltali tímabilsins, en stofnar hlýra, tindaskötu og skrápflúru eru í sögulegu lágmarki. Stofn skötusels fer minnkandi og nýliðun í stofninn hefur verið léleg frá árinu 2008 borið saman við árin 1998-2007.

Þetta kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar þar sem greint er frá helstu niðurstöðum stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum sem fram fór dagana 26. febrúar til 21. mars sl. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1985.

„Hjá flestum aldurshópum þorsks er meðalþyngd nálægt eða yfir meðaltali rannsóknatímans. Mælingar síðustu þriggja ára sýna þó að árgangurinn frá 2015 er með þeim léttari frá 1985. Meðalþyngd ýsu eftir aldri hefur farið vaxandi á undanförnum árum og er nú yfir meðaltali hjá öllum aldurshópum nema eins árs. Loðna var helsta fæða þorsks og ýsu eins og ávallt á þessum árstíma. Áberandi breyting hefur orðið á útbreiðslu loðnu undanfarin ár, ef miðað er við magn loðnu í þorskmögum. Í ár fékkst mikið af loðnu í mögum þorsks við norðanvert landið.

Útbreiðsla ýmissa tegunda hefur breyst á tímabilinu, t.d. ýsu og skötusels, en stofnmælingin í ár bendir til að útbreiðsla skötusels sé farin að líkjast því sem var fyrir aldamót þegar stofninn var lítill. Magn ýmissa suðlægra tegunda s.s. svartgómu og litlu brosmu hefur aukist, en á sama tíma hafa ýmsar kaldsjávartegundir gefið eftir á landgrunninu fyrir norðan. Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár, en þó um hálfri gráðu lægra en fyrir ári síðan.

Skýrslan Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum 2018 – framkvæmd og helstu niðurstöður

 

Deila: