Fiskeldi í Sóknarfæri

Deila:

Fyrsta tölublað Sóknarfæris á þessu ári er helgað fiskeldi á Íslandi. Fjallað er um hvers kyns eldi, allt frá hrognum í mat á mannsins disk. Farið er yfir ýmsa þjónustuþætti við fiskeldið og rætt við fólk, sem í eldinu hrærist.

Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri fylgir blaðinu úr hlaði í leiðara þess: „Engin atvinnugrein á Íslandi er í jafn mikilli sókn og fiskeldi þessi árin. Hvert framleiðslumetið er á fætur öðru er slegið og fiskeldi er orðið raunverulegur stólpi undir atvinnu- og efnahagslífinu á Íslandi. Það hefði þótt næsta ótrúlegt fyrir áratug ef hlutur eldisafurða í verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi yrði komið í tæp 5% árið 2021 en það er engu að síður svo. Sama á hvaða mælikvarða er litið þá sést að fiskeldi er að ryðja sér hratt til rúms á Íslandi og engar blikur á lofti um bakslag. Þrátt fyrir hátt í 5% aukningu í framleiðslu í fiskeldi í heiminum á ári dugir það ekki til að mæta eftirspurn. Hún vex ennþá hraðar.

 Þetta er vitanlega drifkraftur uppbyggingar fiskeldis, ekki aðeins hér á landi heldur í öðrum löndum heims þar sem fiskeldi er stundað. Sókn er í meira prótein, það þarf að metta munna sem ekki verður gert með aukinni sókn í fiskistofna hafanna. Vöxtur í fiskeldi hefur í umræðunni síðustu ár verið nánast einskorðaður við sjókvíaeldi og þar er talsvert í land enn áður en útgefin leyfi verða fullnýtt. Það eru hins vegar áform um stóraukið landeldi á laxi sem eru hvað áhugaverðust þessa dagana. Mjög lítið er framleitt af laxi í landeldi í dag, ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu. Kostir virðast hins vegar margir við slíkt eldi og þau tækifæri grundvallast ekki síst á aðgangi að heitu vatni eða annarri orku sem mun styðja við eldið.

Og svo þarf auðvitað að halda því til haga að Ísland stendur einnig að baki stórs hluta eldisbleikjuframleiðslunnar á heimsvísu og eldi á öðrum fisktegundum hefur einnig sótt í sig veðrið síðustu ár. Frumkvöðulshugsun Íslendinga er mjög greinilegur drifkraftur þess sem er að gerast í fiskeldinu þessi misserin en þekking hefur líka verið sótt til erlendra fyrirtækja sem hafa langa reynslu í greininni, og þekkja hvaða víti ber að varast í uppbyggingunni. Þannig byggist þekkingin ennþá hraðar upp hér á landi, bæði í fiskeldinu sjálfu og í ört vaxandi þjónustu fyrirtækja í kringum þessa grein.

Þekkingarbakland Íslendinga í sjávarútvegi er líka mikilvægt í þróun greinarinnar þannig að margt leggst á eitt. Fiskeldið hefur svo sannarlega tekið flugið og er líklegt til að fljúga ennþá hærra á komandi árum.“

Sóknarfæri er dreift til fyrirtækja um allt land og það má einnig nálgast á slóðinni https://ritform.is/

Deila: