Erindi um eitraða svifþörunga

Deila:

Hafsteinn Guðfinnsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, mun flytja erindið Vöktun eitraða svifþörunga við Ísland á málstofu Hafrannsóknastofnunar á morgun, fimmtudaginn 14. desember. Málstofan verður haldin í fyrirlestrasal á 1. hæð Skúlagötu 4 og verður jafnframt streymt á YouTube-rás stofnunarinnar.

 

Málstofan hefst kl. 12:30. Öll velkomin.

 

Í fyrirlestrinum verður sagt frá helstu tegundum svifþörunga í sjó, sem valdið geta vandamálum í fiskeldi, kræklingarækt og nýtingu á skelfiski við Ísland. Vöktun á eiturþörungum, sem orsakað geta eitranir í skelfiski, hefur farið fram í allt að átta íslenskum fjörðum frá árinu 2005 en þó ekki öllum á sama tíma. Háfsýni og sjósýni eru tekin og greind þar sem skelfiskur er nýttur. Vöktun eiturþörunga tengist því kræklingarækt, kræklingatínslu og veiðum á skeljum til manneldis. Vöktun eiturþörunga er samvinnuverkefni Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar (MAST) og kræklingaræktenda.

Svifþörungar eru megin æti kræklings, þar með taldir eitraðir svifþörungar. Neysla kræklings getur því verið varasöm þegar eitraðir svifþörungar eru til staðar í sjónum í of miklu magni. Hér við land er eitraða svifþörunga aðallega að finna í tveimur ættkvíslum skoruþörunga (Dinoflagellates), Dinophysis og Alexandrium og einni ættkvísl kísilþörunga (Diatoms), Pseudo-nitzschia. Nokkrar tegundir teljast til hverrar ættkvíslar ofangreindra hópa.

Niðurstöður vöktunarinnar sýna að þessar þrjár ættkvíslir finnast í öllum íslenskum fjörðum sem hafa verið kannaðir. Þær sýna líka að frumufjöldi þessara tegunda er oft svo hár að hætta getur verið á uppsöfnun eiturs í skelfiski en það getur valdið alvarlegum veikindum hjá fólki sem neytir eitraðs kræklings. Eiturefnin PSP (paralytic shellfish poison) og DSP (diarrhetic shellfish poison) hafa mælst í íslenskum kræklingi samhliða eða í kjölfar þess að Alexandrium og Dinophysis tegundir hafa fundist í sjósýnum frá öllum þessum stöðum. Af þessum sökum hefur þurft að fresta uppskeru eða tínslu kræklings vikum og jafnvel mánuðum saman í fjörðum þar sem kræklingarækt og kræklingatínsla fer fram. Eiturefni af völdum Pseudo-nitzschia tegunda hafa ekki fundist í íslenskum kræklingi en er alþekkt erlendis.

Greint verður frá helstu niðurstöðum síðustu ára varðandi vöktun eiturþörunga í nokkrum fjörðum. Einnig verður greint frá niðurstöðum úr sérstökum rannsóknum sem fram fóru í Hvalfirði frá vori 2016 til vors 2017 þar sem eiturefnin DSP og PSP voru mæld í kræklingi samhliða greiningum svifþörungasýna úr sjó. Er þetta í fyrsta sinn á Íslandi sem tekist hefur að gera tíðar samfelldar mælingar á þessum þáttum og fylgja því eftir hvernig DSP magn í skel tengist fjölda Dinophysis fruma. Þessar rannsóknir voru samvinnuverkefni Hafrannsóknastofnunar, Matís, Fjarðaskeljar og Skelræktar. AVS sjóðurinn styrkti þetta verkefni.

 

Deila: