Ráðherra fylgir ráðgjöf Hafró

Deila:

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu fyrir næsta fiskveiðiár, 2016/2017. Ákvörðun ráðherra er tekin að höfðu samráði við ríkisstjórn, hagsmunaaðila í sjávarútvegi auk stjórnarandstöðu og formanns atvinnuveganefndar Alþingis. Ráðherra fylgir veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í öllum tegundum.

Í nýlegri skýrslu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að staða margra fiskistofna sé sterk og því ráðleggur stofnunin aukinn afla í mikilvægum tegundum s.s. þorski og ýsu. Hins vegar er ástand íslensku sumargotssíldarinnar slæmt vegna sýkingar og þarf því að draga verulega úr veiðum.

Sjálfbær nýting og varúðarstefna eru grunnforsendur ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar ákvörðunar ráðherra, en fyrir sífellt fleiri af helstu nytjastofnum hefur verið sett nýtingarstefna sem byggir á aflareglu. Við mótun nýtingarstefnu er haft samráð við hagsmunaaðila, auk þess sem leitað er eftir áliti og staðfestingu frá Alþjóða hafrannsóknaráðinu. Má því fullyrða að fiskveiðar við Ísland standist alþjóðleg sjónarmið um sjálfbærni og varúð.

„Í heildina litið eru þetta góð tíðindi sem benda eindregið til þess að stjórn fiskveiða hér við land hafi verið ábyrg á síðustu árum og skili nú þessum árangri þó að ástand síldarinnar sé áhyggjuefni sem þarfnast frekari rannsókna. Við byggjum á sjálfbærri nýtingu vegna þess að okkur ber skylda til þess að skila auðlindinni sterkri til komandi kynslóða. En það er líka mikilvægt í alþjóðlegri markaðssetningu að geta vottað ábyrgar veiðar, því neytendur eru meðvitaðri og gera meiri kröfur en áður. Ég legg einnig áherslu að styrkja hafrannsóknir, ekki síst í ljósi mögulegra breytinga í hafinu umhverfis Ísland, t.d. af völdum loftlagsbreytinga. Við verðum að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að bægja þeirri vá frá, en umfram allt þurfum við að skilja hana og möguleg áhrif hennar. Þessar áherslur komu skýrt fram á Hafráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna í NY á dögunum.” Segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í meðfylgjandi töflu má sjá ákvörðun ráðherra um heildaraflamark fyrir einstakar tegundir. Þess ber að geta að aflamark fyrir mikilvæga uppsjávarstofna verður ákveðið á haustmánuðum.

 

Ákvörðun um leyfilegan heildarafla fiskveiðiárið 2017/2018, tonn:

Tegund Ákvörðun 2016 Ráðgjöf Ákvörðun 2017
Blálanga 2.040 1.956 1.956
Djúpkarfi 12.922 11.786 11.786
Grálúða 13.536 13.536 13.536
Gullkarfi 47.205 45.205 45.450
Gulllax 7.885 9.310 9.310
Humar 1.300 1.150 1.150
Íslensk sumargotssíld 63.000 38.712 38.712
Keila 3.380 4.370 3.770
Langa 8.143 8.598 7.598
Langlúra 1.110 1.116 1.116
Litli karfi 1.500 1.500 1.500
Sandkoli 500 500 500
Skarkoli 7.330 7.103 7.103
Skrápflúra 0 0 0
Skötuselur 711 853 853
Steinbítur 8.811 8.540 8.540
Ufsi 55.000 60.237 60.237
Úthafsrækja 4.100 0 0
Ýsa 34.600 41.390 39.890
Þorskur 244.000 257.572 255.172
Þykkvalúra/Sólkoli 1.087 1.304 1.304

 

Deila: