Ábyrgar fiskveiðar, eini kosturinn

Deila:

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi skrifar eftirfarandi pistil um ákvörðun heildarafla 2017 á heimasíðu samtakanna:

Það er ekki bara skynsamlegt og sjálfsagt, vegna komandi kynslóða, að ganga vel um auðlindir hafsins; okkur er ekki stætt á öðru

Undanfarin ár hafa sjávarútvegsráðherrar þessa lands borið gæfu til þess að styðjast við aflareglu þegar ákveðnir eru kvótar fyrir helstu fisktegundir. Aflareglan tekur mið af stofnmati Hafró og henni er ætlað að tryggja að veiðiálag sé hóflegt og nýtingin sjálfbær; eða með öðrum orðum, sóknin grundvallast á vísindum. Þetta kallast varúðarnálgun, en í henni felst að nýtingastefnan leiði ekki til þess að gengið sé of nærri fiskistofnum og þeir stofnar sem hafa minnkað vegna of mikils veiðiálags nái sér aftur á strik, eins og reyndin hefur orðið með íslenska þorskstofninn. Það er ekki sjálfgefið að farið sé að ráðleggingum vísindamanna þegar sótt er í fiskistofna og víða um heim eru stofnar ofveiddir. Ég hygg að flestir hér á landi séu mér sammála í því, að við eigum að halda okkur við nýtingarstefnu og ráðleggingar sem byggjast á vísindum. Í raun ættum við ekki að þurfa að takast á um það; þeirri umræðu ætti að vera lokið. Það er rétt að undirstrika það, að sjómenn gegna mikilvægu hlutverki í söfnun upplýsinga sem vinna sérfræðinga Hafró byggist á.

Það er ekki bara skynsamlegt og sjálfsagt, vegna komandi kynslóða, að ganga vel um auðlindir hafsins; okkur er ekki stætt á öðru. Þeir sem kaupa af okkur fiskinn gera þá kröfu að sýnt sé fram á að uppruna afurða sé að finna í ábyrgum veiðum þar sem varúðar er gætt. Í verslun með sjávarafurðir í hinum vestræna heimi þykir þetta sjálfsögð krafa og hún nær að sjálfsögðu til fleiri afurða en fisks og fyrir henni eru gildar ástæður. Ein er sú að alþjóðasamningar sem Ísland er aðili að, gera ráð fyrir að svona sé staðið að málum. Þá hafa kaupendur mikinn hag af því að fjárfesta í langtíma sambandi við framleiðendur og þeir vilja tryggingu fyrir því að hægt verði af fá vöru afhenta til lengri tíma. Í þriðja lagi er svo orðsporið. Óábyrgð umgengni við náttúruna skaðar orðspor með miklum og neikvæðum áhrifum og það getur tekið langan tíma að byggja það upp aftur. Ábyrg, sjálfbær og hagkvæm nýting fiskistofna er nauðsynleg undirstaða öflugs sjávarútvegs.

 

Deila: