Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum

Deila:

Á ársfundi SFS fór Heiðrún Lind framkvæmdastjóri samtakanna yfir sjálfbærni í sjávarútvegi og hvernig markmið fiskveiðistjórnunarlaga endurspeglar umhverfislega-, efnahagslega og samfélagslega sjálfbærni. Erindi hennar hefur nú verið birt á heimasíðu samtakanna.

Í sjálfbærum sjávarútvegi felst viðkvæmt samspil þriggja þátta; Í fyrsta lagi verður sjávarútvegur að vera umhverfislega sjálfbær, í öðru lagi þarf sjávarútvegur að vera efnahagslega sjálfbær og í þriðja lagi þarf sjávarútvegur að vera samfélagslega sjálfbær. Í 1. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða er kveðið á um að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Jafnvægi á milli þessara þriggja þátta er nauðsynlegt til þess að unnt sé að viðhalda blómlegum sjávarútvegi til framtíðar.  Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fór yfir jafnvægi milli þessara þriggja þátta í erindi sínu á ársfundi SFS; Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum.pdf.

Umhverfislega sjálfbær

Með því að setja kvóta á sérhvern fiskistofn, veiða í samræmi við niðurstöður hafrannsókna og faglega ráðgjöf sérfræðinga hefur íslenskt fiskveiðistjórnunarkerfi stuðlað að uppbyggingu fiskistofna sem eftir er tekið um heim allan. Kvótasettar fiskveiðar eiga þannig að tryggja að hugað sé að hagsmunum Íslendinga til langs tíma, þannig að kynslóð fram af kynslóð geti nýtt íslensku sjávarauðlindina.

SFS Viðmiðunarstofn þorsks

Efnahagslega sjálfbær sjávarútvegur

Til að ná megi efnahagslegri sjálfbærni þarf stöðugt og fyrirsjáanlegt lagaumhverfi, þar sem hvati er til þess að gera sem mest verðmæti úr hverju veiddu kílói fisks. Samþætting í sjávarútvegi, þar sem virðiskeðjan er óslitin frá veiðum til sölu, og aukin tækni hafa jafnframt verið nauðsynlegir þættir í því að auka enn frekar nýtingu afla og fjölbreytileika afurða. Þetta hefur lagt grunn að hinni efnahagslegu sjálfbærni íslensks sjávarútvegs. Í þessu samhengi skal þess getið að í Noregi hamlar löggjöf því að veiðar og vinnsla séu samþættar. Afleiðingar þeirra takmarkana eru  augljósar, því íslensk fyrirtæki fá að jafnaði um þriðjungi meira á hvert veitt kíló þorsks en norsk fyrirtæki. Hin aukna vinnsla hér á landi hefur þannig víðtæk og jákvæð áhrif á bæði sjávarútveg og samfélagið í heild sinni.

 

SFS Efnahagsleg sjálfbærni

Samfélagslega sjálfbær sjávarútvegur

Sjávarútvegur er lífæð íslenskt samfélags og grunnatvinnuvegur um allt land. Miklar framfarir hafa orðið í veiðum og vinnslu og í raun má segja að hafin sé tæknibylting í sjávarútvegi. Þessi bylting hefur verið drifin áfram af hugviti og frumkvöðlastarfsemi íslenskra sjávarútvegs- og iðnfyrirtækja. Störfum hefur fækkað með aukinni tækni, en aftur á móti hefur aukin tækni leitt til þess að aðstæður þeirra sem starfa við veiðar og vinnslu eru mun betri en þær voru áður og störfin orðin fjölbreyttari. Aukin tækni og framleiðni gerir það að verkun að sjávarútvegurinn greiðir nú í dag um 20- 25 milljarða í bein opinber gjöld, útsvar starfsmanna í sjávarútvegi, á föstu verðlagi,  hefur einnig aukist verulega frá 1998 til 2015, eins og neðan greind mynd sýnir. Það er ákveðinn vísir að laun á hvern starfsmanna hafa hækkað þrátt fyrir fækkun í hefðbundnum veiðum og vinnslu. Þá er ekki síður mikilvægt að útsvar starfsmanna í sjávarútvegi hefur hækkað í öllum landshlutum.

SFS Samfélagsleg sjálfbærni

Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum

Í flóknu samspili þeirra þriggja þátta sem hér hefur verið vikið að hefur því miður oft verið lögð sérstök áhersla á mikilvægi eins þátt umfram aðra. Einn þáttur er ekki sjálfstætt markmið heldur tengjast þeir allir órjúfanlegum böndum. Íslensk þjóð hefur byggt upp heimsveldi í sjávarútvegi. Að raska jafnvægi þáttanna þriggja sem hér hefur verið vikið að og þar með sjálfbærni íslensks sjávarútvegs myndi ekki aðeins draga úr samkeppnishæfni íslensk sjávarútvegs á erlendum mörkuðum, heldur einnig minnka þann ábata sem íslenskt samfélag hefur upp skorið með ábyrgu og vel þróuðu fiskveiðistjórnunarkerfi. Einstakt tré sem á veginum verða mega ekki leiða til þess að við missum sjónar af skóginum.

 

Deila: