Minna aflaverðmæti vegna verkfalls í febrúar
Aflaverðmæti íslenskra skipa í febrúar var 5,8 milljarðar króna sem er 53,6% minna en í febrúar 2016. Mikill samdráttur í aflaverðmæti skýrist af verkfalli sjómanna sem var aflýst 19. febrúar. Á 12 mánaða tímabili frá mars 2016 til febrúar 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa rúmum 118 milljörðum sem er 19,4% minna en á sama tímabili ári fyrr, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.
Það sem vekur athygli í tölum Hagstofunnar er að fiskafli í febrúar dróst aðeins saman um 4%, féll úr 88.879 tonnum í 85.678 tonn, meðan verðmætið féll um 53,6%. Skýringin á því liggur í því að botnfiskafli dróst saman um 58% vegna verkfalls sjómanna, féll úr 47.393 tonnum í 19.823 tonn. Á móti kemur að afli í uppsjávarfiski fór úr 39.609 tonnum í 65.290. Þar liggur munurinn í þreföldun loðnuaflans, en enginn annar uppsjávarfiskur veiddist í mánuðinum. 18.000 tonn af kolmunna veiddust í febrúar í fyrra, en ekkert nú. Verð á uppsjávarfiski er mun lægra en á botnfiski, þannig að þessi mikla aukning um rúmlega 40.000 tonn í loðnu vegur hvergi upp á móti 18.000 tonna samdrætti í kolmunna og tæplega 30.000 tonna samdrætti í bolfiski mælt í verðmætum.
Verðmæti uppsjávarafla í febrúar varð alls 1,9 milljarðar króna, sem er 16,1% aukning miðað við sama mánuð í fyrra, þrátt fyrir 65% aukningu í afla.
Verðmæti botnfiskaflans féll úr 10,3 milljörðum í 3,8 eða um 62,5% en botnfiskaflinn í mánuðinum dróst saman um 58%. Verðmæti þorskaflans í febrúar varð um 3 milljarðar sem er samdráttur um 56,7% en samdrátturinn í afla var 51%.
Svipaða sögu er að segja um aðrar fisktegundir, samdráttur í afla og verðmæti hans fer nokkuð saman.