Smærri útgerðum ógnað

Deila:

Samkvæmt dagskrá Alþingis verður þingfrestun 31. maí. Eftir því sem best er vitað hefur hvorki sjávarútvegsráðherra né atvinnuveganefnd komið að vanda sem nú hleðst upp hjá smærri útgerðum sem byggja rekstur sinn á veiðum á þorski og öðrum bolfiski. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda fer yfir stöðu mála í eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, 30. maí.

Fiskverð lækkar – veiðigjald hækkar

Örn Pálsson

Meðalverð fyrir hvert kíló af óslægðum þorski á fiskmörkuðum í mars og apríl var 206 krónur en 264 á sama tímabili í fyrra, 22% lækkun. Bent er á að helsta ástæða verðlækkunarinnar sé sterkt gengi krónu gagnvart erlendum myntum. Seðlabankinn boðar að krónan haldist sterk út næsta ár. Yfirlýsingar ráðherra benda ekki til þess að skráning gengis verði með öðrum hætti en nú er, gengisfelling því ekki í kortunum.

  1. september næstkomandi breytist veiðigjald. Samkvæmt lögum þar um og forsendum fyrir upphæð gjaldsins má gera ráð fyrir verulegri hækkun, engu skiptir þótt fiskverð nú sé í lægð. Í þingsályktun fjármála- og efnahagsráðherra um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022 er gert ráð fyrir að tekjur af veiðigjaldi aukist um tæp 50%, fari úr 6,9 milljörðum í 10,2. Veiðigjald fyrir þorsk gæti því farið úr 11 krónum í 19-20 krónur, enda tekið mið af afkomu 2015 sem almennt var góð.

Umhverfi sem hér er lýst mun reynast mörgum útgerðum sem háðar eru þorskveiðum mjög erfitt. Mikill rekstrarvandi blasir því við ef ekkert verður að gert. Einkum á þetta við smærri útgerðir sem ekki hafa vinnslu á bak við sig.

Þögull formaður – aðgerða er þörf

LS sendi formanni atvinnuveganefndar beiðni um fund með honum 10. maí síðastliðinn. Þar sem engin viðbrögð bárust frá honum var beiðnin ítrekuð tveimur dögum síðar. Enn hefur ekkert heyrst frá formanninum, sem er einsdæmi í rúmlega 30 ára sögu Landssambands smábátaeigenda.

Ætlun LS var að ræða þau óveðursský sem hrannast hafa upp á miðunum undanfarna mánuði. Breyting á lögum um veiðigjald væri nauðsynleg. Annars vegar að framlengja tímann sem afsláttur er veittur af gjaldinu vegna vaxtakostnaðar af lánum sem tekin voru við kaup á veiðiheimildum og hins vegar að breyta til fyrra horfs að aflahlutdeildarhafar greiði gjaldið en ekki þeir sem veiða. Breytingin lækkaði ekki leiguna heldur hækkaði sem nam veiðigjaldinu og gerði útgerð báta sem háðir eru leigu nánast vonlausa.

Útgerðir smærri báta eiga allt sitt undir því að gott verð fáist fyrir þorsk. Sjórinn er kakkfullur af þorski en sá böggull fylgir skammrifi að verðið sem fæst fyrir hann í dag er undir þolmörkum. Væntingar til verulegrar aukningar veiðiheimilda í þorski eru vart fyrir hendi þrátt fyrir að niðurstöður stofnmælinga Hafrannsóknastofnunar í mars sýni hækkun vísitölu þorsks milli ára. Stjórnvöld verða nú þegar að grípa til aðgerða sem gera minnstu útgerðunum kleift að lifa af þessa tíma.

Það er íhugunarefni að þeir aðilar sem hér hafa verið nefndir skuli ekki hafa haft dug í sér að ræða þennan vanda á Alþingi og leggja fram tillögur sem létta róðurinn. Þess í stað horfa nú fjölmargar smærri útgerðir til rekstrarskilyrða sem leiða þær í þrot. Aflaheimildir frá þeim flyttust til stærri útgerða með tilheyrandi samþjöppun og fábreyttari útgerðarflóru.

Hér með er skorað á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir breyttum reglum á veiðigjaldi sem hér hafa verið nefndar auk þess að gjaldið verði lækkað verulega í stað þess að það hækki. Líklegt er að almenningur sýni slíkum breytingum skilning á móti þeirri styrkingu krónunnar sem veitir honum aukna hagsæld. Lækkunin nái til útgerða sem ekki hafa vinnslu á bak við sig og aflaheimildir byggja að mestu á þorski.

Deila: