Norðurþing vill hitta ráðherra vegna strandveiða

Deila:

Fimm sveitarfélög á Norður- og Austurlandi hafa óskað eftir fundi með matvælaráðherra til að ræða slæma stöðu strandveiðiútgerða. Tap þessara sveitarfélaga í fyrra nam hálfum milljarði króna þar sem ekki tókst að ljúka veiðitímabili strandveiða. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.

Nú er hálfur mánuður þar til strandveiðar hefjast. Undanfarin ár hafa strandveiðar verið stöðvaðar áður en 48 dögum yfir fjögurra mánaða tímabil hefur verið náð. Í fyrra voru veiðar stöðvaðar þegar vertíðin hefði átt að vera rétt rúmlega hálfnuð. Útgerðir fyrir austan land hafa liðið sérstaklega fyrir þetta fyrirkomulag en allir veiða úr sama pottinum. Þegar hann klárast – 10 þúsund tonn – lýkur strandveiðum. Fyrir austan gengur fiskur seinna á miðin en fyrir vestan land.

Þetta fyrirkomulag hefur leitt af sér að útgerðir flýja austurhelming landsins. Í fyrra fóru fimm bátar frá Raufarhöfn vestur og í ár er amk. ein útgerð farin varanlega frá Kópaskeri.

Fram kemur í frétt RÚV að Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, hafi óskað eftir fundi með nýjum matvælaráðherra. Ályktanir sveitarfélaganna á Norðausturlandi hafa ekki dugað til, undanfarin þrjú ár. „Og við erum núna komnir í samtal, sveitarstjórar á svæði C, og erum að setja okkur í samband við nýjan matvælaráðherra til þess að fara yfir þetta fyrirkomulag og hvaða áhrif þetta hefur í rauninni á byggðarlögin hérna,“ segir hún við RÚV.

Deila: