Stór og kvikur fiskur

Deila:

Börkur NK kom til Neskaupstaðar á miðvikudag með 1.200 tonn af makríl til vinnslu. Byrjað var að landa úr skipinu klukkan þrjú um nóttina. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar aflinn hefði fengist.

„Við fengum þetta 30 mílur inni í Smugunni eða 250 mílur frá Norðfirði. Aflinn fékkst í þremur holum og við drógum í tvo tíma, fjóra tíma og einn og hálfan tíma. Þetta var því góð veiði og það var nóg að sjá. Við vorum heppnir að þessu sinni. Stundum hitta menn á þetta og stundum ekki. Þetta er stór og kvikur fiskur og það getur verið erfitt að eiga við hann því hann fer mjög hratt yfir.

Á meðan við vorum þarna að fiska var makríllinn að ganga í norðvestur og var farinn að nálgast mjög íslensku lögsöguna. Eftir að við lögðum af stað í land hittu tveir bátanna í góð hol þarna en síðan hefur reynst erfitt að finna fiskinn. Svona er þetta, en það eiga eftir að koma aðrar gusur hvort sem það verður í Smugunni eða innan íslensku lögsögunnar. Almennt hefur vertíðin gengið vel en eins og venjulega eru veiðar á makríl sveiflukenndar. Veiðin er háð góðu veðri og síðan er það vandamál hve fiskurinn fer hratt yfir. Það er auðvelt að týna honum. Það var byrjað að vinna úr skipinu klukkan þrjú sl. nótt og löndun ætti að ljúka einhvern tíman á morgun og þá verður strax haldið til veiða reikna ég með,“ segir Hjörvar í gær.

Beitir NK er á miðunum og Bjarni Ólafsson AK er á leiðinni á miðin. Margrét EA er að landa í Færeyjum.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: