Tvö tonn af rusli úr Mölvík

Deila:

Sund­hóp­ur­inn Mar­glytt­urn­ar, Blái her­inn og hóp­ur sjálf­boðaliða, alls um sex­tíu manns, tíndu upp um tvö tonn af rusli í Möl­vík við Grinda­vík í gærkvöldi. Soffía Sig­ur­geirs­dótt­ir, ein af Mar­glytt­un­um, sagði í samtalið við mbl.is að ár­ang­ur­inn væri mjög góður miðað við aðeins tveggja tíma verk.

„Þessi fjara var hreinsuð fyr­ir tæp­lega fjór­um árum síðan. Þá var nán­ast eins og hún hefði verið ryk­suguð en þrátt fyr­ir það náðum við að taka sam­an tvö tonn,” seg­ir hún og nefn­ir að ýmsu úr sjáv­ar­út­veg­in­um skoli á land í fjör­unni ásamt skot­hylkj­um, brotn­um leir­dúf­um og eyrna­töpp­um frá skot­veiðimönn­um. Mest hafi verið um plast og veiðafæri í fjör­unni samkvæmt færslu á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Guðni Th. Jó­hann­es­son, for­seti Íslands, tók þátt í hreins­un­inni og stóð hann sig gríðarlega vel að sögn Soffíu, enda mik­ill um­hverf­is­vernd­arsinni. „Það er virki­lega ánægju­legt að hann hafi lagt þessu lið. Þetta er svo brýnt fyr­ir okk­ur. Við vilj­um hafa Ísland hreint og sjó­inn hrein­an svo að bæði við sjó­sunds­fólkið og fisk­arn­ir geti synt í hrein­um sjó og að við get­um borðað hrein­an fisk en ekki mengaðan af plasti.”

Mar­glytt­urn­ar synda boðsund yfir Ermar­sundið í byrj­un sept­em­ber til að vekja at­hygli á plast­meng­un í hafi og safna um leið áheit­um fyr­ir Bláa her­inn. Hægt er að styrkja verk­efnið í gegn­um Aur-appið en síma­núm­erið er 788-9966.

„Við von­um að lands­menn styrki Bláa her­inn í gegn­um okk­ur. Hann hef­ur starfað við strands­hreins­un í 24 ár og það er gríðarlega þarft verk að halda hon­um gang­andi,” seg­ir Soffía.

Tómas Knútsson, stofnandi Bláa hersins sagðist hafa verið í skýjunum í samtali við heimasíðu Grindavíkur. Merkilegt hafi verið að sjá hversu miklu rusli skolar á land á stað sem var hreinsaður svo vel fyrir fjórum árum.

Meðfylgjandi myndir tók Kolbrún Björnsdóttir fyrir vefsíðu Grindavíkur

 

Deila: