Fiskur í beikonsósu með banönum

Deila:

Nú förum við í uppskrift, sem á sínum tíma þótti nokkuð framandi, þar sem notað er beikon, karrí og bananar í matreiðsluna. Í dag finnst okkur það kannski engin nýlunda, enda erum við farin að elda fiskinn okkar á óteljandi vegu og finnst gaman að prufa eitthvað nýtt. Við fundum þessa uppskrif í blaði úr „Nýjum eftirlætisréttum“ frá Vöku Helgafelli, sem gefnir voru úr fyrir nokkrum áratugum og leist sérlega vel á hana og getum við fyllilega mælt með henni, hvort sem hún telst gömul eða ný. Allt sem er gamalt er nýtt fyrir okkur ef við höfum ekki kynnst því fyrr. Þetta er veisluréttur til að njóta að áliðnum vetri, þegar birtan er farin að hafa betur en myrkrið.

Innihald:

600 g ýsu- eða karfaflök
hveiti
salt
pipar
olía til steikingar
2 bananar

Sósa:

6 beikonsneiðar
1 laukur
250 g sveppir
1-2 tsk karrí
½ dl vatn
1 dl rjómi
salt
pipar

Aðferð:

Roðflettið fiskinn og skerið í hæfilega bita. Setjið hveiti á disk og kryddið með salti og pipar. Veltið fiskinum upp úr hveitinu. Steikið fiskinn í matarolíu og setjið hann á fat. Haldið honum heitum í ofni. Afhýðið sneiðið banana. Brúnið þá augnablik í matarolíu og setjið ofan á steikta fiskinn.

Sósa:

Skerið beikonið í litla bita og laukinn smátt. Sneiðið sveppina. Steikið beikonið á þurri pönnu. Bætið lauknum og því næst sveppunum út á pönnuna. Stráið karrí yfir (athugið vel styrkleikann á karríinu). Hellið vatni og rjóma á pönnuna og smakkið til með salti og pipar.

Berið fiskinn og sósuna fram með kartöflum eða hrísgrjónum.

Deila: