Mest verðmæti á land á höfuðborgarsvæðinu

Deila:

Verðmæti landaðs afla á síðasta ári varð 133 milljarðar króna, sem er fall um 12,1% frá árinu áður. Þessi samdráttur kemur misjafnlega niður á landshlutum, en hlutfallslega mestur er hann á Austurlandi. Þar ræður mestu mun minni afli uppsjávarfisks, nær eingöngu loðnu á síðasta ári miðað við árið á undan.  Minnstur er samdrátturinn á Vesturlandi samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Auk minni loðnuafla hefur lækkandi fiskverð almennt mestu áhrifin.

Athygli vekur að útflutningur á óunnum fiski jókst á síðasta ári um 15%. Er það eini „landshlutinn“ sem eykur hlutdeild sína  í umtalsverðum samdrætti heildarinnar.

Eins og venjulega er verðmæti landaðs afla mest á höfuðborgarsvæðinu 32,6 milljarðar króna á síðasta ári. Það er samdráttur um 15%. Á höfuðborgarsvæðinu eru tvær meginhafnir, Reykjavík og Hafnarfjörður. Þar er fyrst og fremst landað botnfiski, ýmist ferskum eða frystum.

Næstmest voru aflaverðmætin á Suðurnesjum 25,2 milljarðar króna. Það er samdráttur um 11,1%. Mest er þar um botnfisk að ræða, en einnig makríl og eitthvað af loðnu. Á Austurlandi voru verðmætin 18,6 milljarðar króna, sem er samdráttur um 22,1% og eins og áður sagði munar þar mestu um minni afla af loðnu.

Norðurland eystra kemur næst með 17,3 milljarða, sem er aðeins 4,8% samdráttur, en þar er miklu landað af botnfiski. Á Suðurlandi var landað afla að verðmæti 12,9 milljarðar króna, sem er 14,8% samdráttur og þar ræður loðnan miklu.

Aflaverðmæti á Norðurlandi vestra var 8,6 milljarðar króna og dróst saman um 13,6% og er það í nokkru samræmi við almenna lækkun fiskverð. Vestfirðir koma næst með 7,7 milljarða, sem er 5,3% samdráttur. Þar er að langmestu leyti landað botnfiski og bendir minni samdráttur en á landsmeðaltalinu til þess að Vestfirðingar hafi aukið afla sinn. Vesturland rekur lestina miðað við aflaverðmæti, þó samdrátturinn sé þar hlutfallslega minnstur. Þar var aflaverðmætið 6,8 milljarðar króna, sem er 4,7% minna en árið áður. Uppistaðan í lönduðum afla á Vesturlandi er botnfiskur.

Á síðasta ári fór utan óunninn fiskur í gámum að verðmæti 5,9 milljarðar króna. Það er aukning um 15%.

Deila: