Tekið til í „ýsuskápnum“
Þegar maður á ýsuflök í frystiskápnum og ferskt grænmeti í ísskápnum, er ekkert vandamál að slá í virkilega góða fiskiveislu. Engin uppskrift til að fara eftir, bara spilað af fingrum fram eftir því sem til er í skápunum. Það gerðum við nú í vikunni og útkoman varð algjört lostæti að okkar mati. Yndislegur kvöldverður hjá gamla settinu. Við mælum með því að fólk geri meira af því að prufa sig áfram og leika leika sér með það sem til er, en látum engu að síður uppskriftina sem varð til fylgja hér. Hún miðast við fjóra.
Innihald:
2 ýsuflök eða um 800 grömm
2 epli
¼ rauð paprika
¼ græn paprika
¼ gul paprika
2 gulrætur
1-2 stór bökunarkartafla
10 sneiðar af beikoni
½ lítri rjómi
rifinn ostur
1 teningur grænmetiskraftur
sítrónupipar eftir smekk
smjörlíki til steikingar
Aðferð:
Steikið beikonið fyrst og leggið til hliðar. Sneiðið gulrætur og kartöflur í þunnar sneiðar, flysjið og kjarnhreinsið eplið og skerið í smá teninga og saxið paprikuna fremur smátt. Steikið gulrætur og kartöflur upp úr smjörlíki til að mýkja þær og kryddið með sítrónupipar. Blandið paprikunni og eplunum út í og látið mýkjast á pönnunni. Hellið rjómanum út á, myljið grænmetiskraftinn út í og látið suðuna koma upp. Smakkið til og bragðbætið eftir smekk og þörf. Myljið 5 sneiðar af beikoni í rjóma- og grænmetisblönduna.
Smyrjið eldfast mót með olíu. Skerið ýsuflökin í hæfilega bita og raðið í botn mótsins. Hellið blöndunni yfir, raðið því sem eftir er af beikoninu yfir og stráið osti jafnt yfir.
Bakið í ofni við 180°C þar til osturinn er orðinn gullinn og byrjað að krauma í eldfasta mótinu.
Berið fram með soðnum hrísgrjónum og salati eða brauði.