Steiktur gullkarfi með sveppum, blaðlauk og ostrusósu

Deila:

Þótt karfi hafi verið einn helsti nytjafiskur Íslendinga um áratuga skeið hófu Íslendingar sjálfir ekki karfaveiðar til manneldis á Íslandsmiðum af alvöru fyrr en eftir seinna stríð. Þjóðverjar og fleiri þjóðir veiddu hins vegar karfa hér við land fyrir þann tíma og var stór hluti þess karfa sem var á boðstólum í Evrópu á millistríðsárunum veiddur við Ísland. Þó ber að nefna að í Fiskætasálmi Hallgríms Péturssonar segir: „Karfinn feitur ber fínan smekk“ — og má því ætla fiskurinn hafi raunar fundist á borðum landsmanna á 17. öld.

Gullkarfi er góður matfiskur sem hentar vel hvort sem er á grillið, í gufusuðu, til að steikja eða ofnbaka. Hann er jafnframt ríkur af próteinum, ómega-3 og snefilefnum eins og seleni, joði og D-vítamíni. Ómega-3 fitusýrur hafa áhrif á myndun efna sem hafa góð áhrif á blóðþrýsting, blóðstorknun, bólgu og ónæmissvörun svo eitthvað sé nefnt. Það má því með sanni segja að gullkarfi sé heilnæmur sælkeramatur.
Þennan fróðlega pistil er að finna á síðu Norðanfisks, fiskurimatinn.is og þar er að finna þessa fínu uppskrift af karfa og margar fleiri af okkar helstu nytjafiskum.

Innihald:

600 g gullkarfi
1 box Flúðasveppir, saxaðir í sneiðar
2 meðalstórir blaðlaukar
6 msk ostrusósa
30 g smjör
Olía til steikingar
Salt og pipar

Aðferð:

Græni endinn af blaðlauknum er skorinn frá, restin söxuð í sneiðar, skoluð og þerruð. Steikið blaðlaukinn í smjörinu þar til að hann er að verða eldaður. Bætið þá sveppunum saman við, kryddið með salti og pipar og eldið vel saman. Blandið ostrusósunni við og geymið á meðan fiskurinn er steiktur á vel heitri pönnu í 3 mín. á hvorri hlið. Kryddaður með salti og pipar. Berið strax fram.

Deila: