Íslenskir útflytjendur kaupa Gadus

Deila:

Icelandic Group hefur komist að samkomulagi um sölu á dótturfélagi sínu í Belgíu, Gadus, til Steinasala ehf. Gadus er leiðandi framleiðslu-, sölu- og dreifingaraðili á ferskum sjávarafurðum. Helstu söluvörur félagsins eru þorskur og lax til smásölu- og heildsöluaðila í Belgíu. Um 7.000 tonn af vörum fara árlega um verksmiðju félagsins og starfsmenn eru um 130 talsins. Tekjur Gadus námu ríflega 83 milljónum evra árið 2016.

Að baki Steinasölum standa Sigurður Gísli Björnsson hjá Sæmarki-sjávarafurðum, Akur fjárfestingar, Hjalti Halldórsson og Bjartmar Pétursson hjá Fishproducts Iceland ásamt öðrum meðfjárfestum sem eru öflug íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Markmið kaupanda er að efla sölu og markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum í Belgíu og mið-Evrópu.
Í janúar síðastliðnum tilkynnti stjórn Icelandic Group um söluferli á Gadus. Fjölmargir innlendir sem og erlendir aðilar sýndu áhuga á kaupum á félaginu. Niðurstaða fyrrgreinds ferlis var að ganga til samninga við Steinasali. Kaupsamningur var undirritaður með hefðbundnum fyrirvörum og ráðgera aðilar að afhending félagsins fari fram í maí mánuði. Icelandic Group naut ráðgjafar Íslandsbanka og Deloitte var ráðgjafi kaupanda.

„Icelandic Group keypti Gadus árið 2012 sem þá var að fullu í erlendri eigu með það að markmiði að opna nýtt markaðssvæði fyrir íslenskar sjávarafurðir. Við erum því afar ánægð með þessa niðurstöðu og teljum að aðkoma íslenskra aðila í sjávarútvegi að Gadus sé mjög jákvætt skref fyrir félagið og gefi því enn frekari tækifæri að efla ímynd og verðmæti íslenskra sjávararfurða í mið-Evrópu. Við óskum Steinasölum heilla með kaup á sterku og spennandi félagi,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, Stjórnarformaður Icelandic Group og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands.
Sigurður Gísli Björnsson, f.h. Steinasala segir: „Gadus er mjög spennandi félag. Markmið fjárfesta með kaupunum er að tryggja það að íslenskur sjávarútvegur ráði áfram yfir órofinni virðiskeðju frá veiðum til neytenda. Beinn aðgangur íslensks sjávarútvegs að erlendum neytendamörkuðum er afar mikilvægur hlekkur í þeirri keðju að hámarka verðmæti auðlindar þjóðarinnar.“
Um Icelandic Group:

Framtakssjóður Íslands (FSÍ) er eigandi að 100% hlutafjár í Icelandic. FSÍ er fjárfestingarsjóður í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS.

Icelandic Group er eigandi vörumerkjanna „Icelandic“ og „Icelandic Seafood“ og heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna ásamt þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi. Helstu samstarfsaðilar félagsins eru Solo Seafood og Highliner Foods sem selja hágæða sjávarafurðir undir vörumerkinu Icelandic Seafood. Afurðir seldar undir vörumerkinu Icelandic Seafood lúta ströngum gæðakröfum og gæðaeftirliti sem er grunnurinn að þeirri sterku stöðu sem vörumerkið hefur á mörkuðum.

Solo Seafood, eigandi Ibérica á Spáni, er einn helsti sölu- og dreifingaraðili á léttsöltuðum þorski frá Íslandi en Ibérica selur sjávarafurðir til meira en 4.000 viðskiptavina í fimm löndum í Suður-Evrópu.

Kanadíska fyrirtækið Highliner Foods, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í N-Ameríku í framleiðslu sjávarafurða er leyfishafi vörumerkisins og selur frosnar sjávarafurðir inn á hótel og veitingahús.

Icelandic Group heldur auk þess utan um dótturfyrirtækið Seachill í Bretlandi sem sérhæfir sig í framleiðslu og sölu á sjávarfangi til smásöluaðila. Tekjur Seachill námu 266 milljónum punda árið 2016.

 

Deila: