SFÚ mótmæla auknum heimildum til færslu milli ára
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda FÚ mótmæla harðlega nýrri reglugerð sjávarútvegsráðherra sem heimilar hliðrun á 30% aflaheimilda milli ára. „Þessi ráðstöfun kippir fótunum undan rekstrargrundvelli sjálfstæðra fiskframleiðenda og við blasir að segja verður upp hundruðum starfsmanna víðs vegar um landið,“ segir í ályktun stjórna FSÚ. Það segir ennfremur:
„FÚ telur þessa reglugerð ganga gegn 1. gr. laga um fiskveiðistjórnun. Hliðrunin milli ára dregur verulega úr því magni sem kemur inn á fiskmarkaði og vinnur þannig beinlínis gegn því að sameiginleg auðlind þjóðarinnar sé nýtt í þágu þjóðarinnar allrar. Þessi reglugerð er í þágu handhafa aflaheimilda og ekki annarra. Hún gengur gegn hagsmunum sjálfstæðra framleiðenda, fiskvinnslufólks, neytenda og þjóðarbúsins alls.
Mikil eftirspurn er eftir íslenskum fiski á erlendum mörkuðum og anna sjálfstæðir framleiðendur ekki eftirspurn. Helstu rök fyrir hinni óslitnu virðiskeðju í íslenskum sjávarútvegi, þar sem sami aðili heldur á aflaheimildum, veiðir fiskinn, vinnur hann og selur á erlendum mörkuðum, hafa verið það að einungis hin óslitna virðiskeðja tryggi afhendingaröryggi og góða þjónustu við kröfuharða erlenda markaði. 30% hliðrun á aflaheimildum milli ára á sama tíma og skortur er á íslenskum fiski á fiskmörkuðum innanlands og á erlendum mörkuðum sýnir svart á hvítu að hin óslitna virðiskeðja er blekking ein og sérhagsmunapot en ekki í þágu þjóðarinnar.
Í 10 vikna sjómannaverkfalli héldu nokkur fyrir tæki sjálfstæðra fiskframleiðenda úti þjónustu við mikilvæga ferskfiskmarkaði og skiluðu háu verði til sjómanna og til þjóðarbúsins í heild. Þá var lítið gagn í hinni óslitnu virðiskeðju. Þrátt fyrir þetta á nú enn að skerða framboð til sjálfstæða fiskframleiðenda með þessari aðgerð.
Sífellt kemur betur í ljós hvernig handhafar aflaheimilda hugsa eingöngu um sína sér hagsmuni og greiða sér háar arðgreiðslur en skilja starfsfólk og heilu byggðarlögin eftir í stór vanda og atvinnuleysi þegar það hentar. Ráðamenn þjóðarinnar verða að vakna til vitundar í þessum efnum. Nær væri að stjórnvöld kölluðu eftir samfélagsábyrgð kvótahafa í stað þess að sveigja kerfið til að gera þeim kleift að soga til sín allan arð af sameiginlegri þjóðarauðlind á kostnað sjómanna, samkeppnisaðila í greininni og verkafólks í landvinnslu.
Hin nýja reglugerð grefur undan því að hægt sé að ná sátt um þessa grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Aðildarfyrirtæki SFÚ krefjast þess að hún verði dregin til baka en verði það ekki gert neyðast þau til að hefja þegar í stað undirbúning uppsagna starfsfólks í hundraða tali.“