Breki fer á miðin við Kína

Deila:

Breki VE, nýr ísfisktogari Vinnslustöðvarinnar (VSV), heldur fljótlega „til veiða“  á miðin úti fyrir stöndum Kína en tilgangur sjóferðarinnar er að álagsprófa skipið og láta reyna á það við sem eðlilegastar aðstæður. Veiðarfæri voru send frá Evrópu til Kína af þessu tilefni.

Troll voru sett upp á netaverkstæði VSV fyrir prófunina og send í austurveg. Frá Bretlandi fóru Bridon togvírar til Kína og frá Danmörku fóru Thyroron hlerar og millilóð.

Vsv Rúnar Breki„Aðalatriðið er að kanna afl togskips með stærstu skrúfu íslenska fiskiskipaflotans. Auðvitað kostar verulega fjármuni og fyrirhöfn að senda veiðarfæri alla þessa leið en við viljum ganga úr skugga um að allur búnaður virki eins og til er ætlast áður en skipið verður afhent,“ segir Rúnar Helgi Bogason vélsmiður í samtali á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar. Hann hefur verið í borginni Shidao í Kína í hálft annað ár og litið fyrir hönd útgerðanna eftir smíði Breka VE og Páls Pálssonar ÍS ásamt Finni Kristinssyni vélfræðingi. Síðarnefnda skipið er í eigu Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal. Rúnar Helgi  starfar með Finni Kristinssyni vélfræðingi og yfireftirlitsmanni með smíðum skipanna tveggja.

Þetta eru systurskip, smíðuð eftir sömu teikningu en samt ekki eineggja tvíburar því fiskmóttaka í Breka er stærri en í Páli og á togdekki Breka er viðbótarlúga. Hvoru tveggja stafar af því að Breka er ætlað að stunda karfaveiðar í meira mæli en Páli. Að öðru leyti eru skipin eins og þau verða afhent samtímis, líkast til núna í marsmánuði. Gert er ráð fyrir að siglingin heim taki 58 sólarhringa og leiðin liggi um Panamaskurð.

Togað í kínverskri lögsögu

Vélarrúm Breka er frágengið, búið að prófa ljósavélar og annan búnað og aðalvélin var ræst í fyrsta sinn núna í byrjun vikunnar. Innréttingum í skipinu er lokið að miklu leyti líka.

Fyrir liggur að láta reyna á ýmis tæki og tól í höfn í Kína, meðal annars átaksmæla aðalvélina með því að festa stálvíra úr skipinu í landi og láta skipið síðan toga.

Mikilvægasta þolraunin verður samt úti á sjó og Rúnar Helgi veit ekki til þess að svona nokkuð hafi verið gert áður með íslenskt fiskiskip hjá erlendri skipasmíðastöð fyrir afhendingu.

„Sjórinn er grunnur þarna úti fyrir. Við viljum gjarnan komast á 100 til 150 metra dýpi en það kostar allt að tveggja sólarhringa siglingu hvora leið og ekki víst að kínversk stjórnvöld leyfi slíka langferð. Meiningin er svo að færa trollið yfir í Pál Pálsson og prófa hann á sama hátt líka en ekki fyrr en séð er að allt sé með felldu í Breka. Ef eitthvað kemur upp á þar verður brugðist við í báðum skipunum áður en Páll fer í sína prófunarveiðiferð.“

Eðlileg skrúfustærð! 

Breki skrúfaStærð skrúfu Breka VE og Páls Pálssonar ÍS sætir mestum tíðindum við þessa væntanlegu nýliða í íslenska flotanum. Skrúfuhönnuður er Sævar Birgisson eigandi Skipasýnar.

Rakel Sævarsdóttir, markaðsstjóri í Skipasýn, fjallaði um skrúfur Breka og Páls á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu í nóvember 2016. Hún líkti skipsskrúfu við væng á flugvél eða vindmylluhjól. Langur og mjór flugvélarvængur nýti orku betur en stuttur og breiður. Með því að stækka skrúfu og hægja á henni sé mögulegt að fá meira afl með minni orku, jafnvel svo muni allt að 40%, allt eftir því hvernig skrúfa er fyrir á skipinu.

Orkusparnaður jafngildir að sjálfsögðu eldsneytissparnaði og þar með minni kostaði við útgerðina.

Rakel sagði að ráðamenn Hraðfrystihússins Gunnvarar og Vinnslustöðvarinnar hefðu kannað vel og rækilega hvernig þeir vildu að togarar fyrirtækjanna yrðu útbúnir og undirbúið verkefnin afar vel. Hún brá í lokin upp samanburðarmynd af venjulegri skrúfu togara annars vegar og skrúfu af Breka eða Páli Pálssyni hins vegar. Á milli stendur 180 cm hár karlmaður.

Rakel spurði ráðstefnugesti í Hörpu: „Stærð er afstæð! Skrúfa Skipasýnar er vissulega stór en er ekki frekar hægt að segja að okkar skrúfa sé af eðlilegri stærð en hinar skrúfurnar litlar?“

 

 

Deila: