Síldarvinnslan á stórafmæli í ár

Deila:

Hinn 11. desember á þessu ári verða liðin 60 ár frá stofnun Síldarvinnslunnar hf. en félagið var stofnað árið 1957. Í tilefni þessa tímamótaárs í sögu félagsins er í stuttu máli rifjaður upp aðdragandinn að stofnun þess og upphaf starfseminnar á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Þannig auglýsti stjórn Samvinnufélags útgerðarmanna hlutafjársöfnun vegna stofnunar hlutafélags til byggingar síldarverksmiðju í Neskaupstað. Auglýsingin birtist í vikublaðinu Austurlandi 29. nóvember 1957.

Þannig auglýsti stjórn Samvinnufélags útgerðarmanna hlutafjársöfnun vegna stofnunar hlutafélags til byggingar síldarverksmiðju í Neskaupstað. Auglýsingin birtist í vikublaðinu Austurlandi 29. nóvember 1957.

Á sjötta áratug tuttugustu aldarinnar jukust síldveiðar töluvert úti fyrir Austfjörðum og spáðu fiskifræðingar því að slíkar veiðar myndu halda áfram að aukast. Norðfirðingar höfðu eðlilega áhuga á því að hagnýta silfur hafsins í auknum mæli en aðstaða til móttöku síldar í Neskaupstað var heldur bágborin. Eina fiskimjölsverksmiðjan á staðnum var verksmiðja í eigu Samvinnufélags útgerðarmanna og afkastaði hún einungis 220 málum (30 tonnum) síldar á sólarhring og hafði þróarrými fyrir 50-60 tonn. Á árunum 1952 og 1953 voru stofnaðar tvær síldarsöltunarstöðvar í Neskaupstað en stærð verksmiðjunnar háði mjög allri starfsemi þeirra. Söltunarstöðvarnar þurftu að koma úrgangi í verksmiðjuna og eins þurftu síldarbátarnir að geta losað sig við síld sem ekki reyndist söltunarhæf.
Öllum var ljóst að ef að efla ætti síldariðnað í Neskaupstað varð að stækka mikið fiskimjölsverksmiðjuna sem fyrir var eða byggja nýja og afkastamikla verksmiðju. Árið 1956 kom til tals að stækka fiskimjölsverksmiðju Samvinnufélags útgerðarmanna en að athuguðu máli þótti í alla staði skynsamlegra að byggja nýja verksmiðju. Samvinnufélagið hóf að kanna möguleika á byggingu slíkrar verksmiðju og leiddi sú athugun í ljós að kostur gafst á að fá 14-15 ára gamlar vélar frá Ingólfsfirði, flytja þær austur og reisa verksmiðju sem gæti afkastað 2500 málum (340 tonnum) á sólarhring. Talið var að slík verksmiðja myndi kosta um 10 milljónir króna og þótti það í of mikið ráðist. Raunhæfara þótti að byggja verksmiðju sem gæti unnið 800 mál síldar á sólarhring en hún átti að kosta 3,5 milljónir króna. Jafnframt verksmiðjunni var ráðgert að reisa fimm þúsund mála þró, 350 tonna lýsisgeymi og mjölhús sem gæti rúmað 1000 tonn.

Til greina kom að Samvinnufélag útgerðarmanna myndi reisa verksmiðjuna en skynsamlegra þótti að stofna sérstakt hlutafélag um byggingu hennar og rekstur. Rætt var um að Samvinnufélagið, bæjarfélagið, Dráttarbrautin hf. og fleiri aðilar, einkum útgerðarmenn, yrðu hluthafar í slíku félagi. Áfram héldu umræður um verksmiðjubygginguna og þróuðust þær með þeim hætti að aftur var farið að ræða um verksmiðju sem afkastað gæti 2500 málum á sólarhring. Verksmiðja sem ynni 800 mál þótti einfaldlega ekki nægilega afkastamikil.

Boðað var til stofnfundar hins nýja hlutafélags 21. ágúst árið 1957. Þegar fundurinn var boðaður var vakin athygli á því að allir gætu eignast hlut í félaginu. Af stofnun félagsins varð hins vegar ekki á þessum fundi vegna ágreinings sem upp kom. Ýmsir síldarútvegsmenn á staðnum höfðu aðrar hugmyndir um félagið en fundarboðendur og vildu að stofnað yrði lokað félag 12 eigenda síldarbáta ásamt fjórum öðrum aðilum. Töldu eigendur bátanna mikilvægt að þeir hefðu fulla stjórn á félaginu og ættu öruggan meirihluta í því.

Næstu vikur og mánuði var töluvert þingað og reynt að sætta þau ólíku sjónarmið sem fram komu um eignarhaldið á félaginu. Að því kom að útvegsmennirnir gáfu eftir og féllust þeir á að taka þátt í stofnun félags sem væri opið öllum. Þegar sættir höfðu náðst hófst undirbúningur nýs stofnfundar og var hann boðaður 11. desember.

Alls sátu 43 einstaklingar stofnfundinn og var þar samþykkt að félagið fengi nafnið Síldarvinnslan, en það nafn þótti í góðu samræmi við það hlutverk sem félaginu var ætlað að gegna. Aðalhluthafinn í félaginu í upphafi var Samvinnufélag útgerðarmanna (60%), en þeir hluthafar sem á eftir komu voru bæjarfélagið og Dráttarbrautin hf. Aðrir hluthafar voru 32 talsins. Á stofnfundinum var ákveðið að ráðast í byggingu síldarverksmiðjunnar eins fljótt og unnt væri en markmiðið var að hún gæti hafið vinnslu sumarið 1958.

Teikningar af verksmiðjunni lágu fyrir í marsmánuði og hafði verksmiðjunni verið valinn staður í fjörunni innan við fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna. Í byrjun apríl hófust framkvæmdir. Vélar og tæki voru flutt austur frá Dagverðareyri og einnig mikill gufuketill sem hafði verið í togaranum Venusi sem lá í Hafnarfjarðarhöfn. Byggingaframkvæmdir við verksmiðjuna gengu vel og eins voru byggðar steinsteyptar hráefnisþrær sem rúmuðu tíu þúsund mál eða 1360 tonn. Að morgni hins 17. júlí árið 1958 hófst móttaka síldar í verksmiðjuna en þá kom Gullfaxi NK með fullfermi. Þessi dagur markaði mikil tímamót í atvinnusögu Neskaupstaðar; Neskaupstaður var orðinn alvöru síldarbær.

Hér verður saga Síldarvinnslunnar ekki rakin frekar að sinni, en ávallt er gott að minnast upphafsins þegar merkisafmæli er í nánd. Ráðgert er að birta stutta kafla úr sögu félagsins á heimasíðunni á afmælisárinu.

Á myndinni er síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar 17. júlí 1958 en þann dag hófst móttaka síldar til vinnslu.
Ljósm. Reynir Zoëga

 

Deila: