Vel gengur að tileinka sér nýja tækni

Deila:

,,Aflabrögðin hafa verið góð og það er ekkert upp á þau að kvarta. Við erum smám saman að læra á nýtt skip og nýjan búnað og hver veiðiferð fer í reynslubankann og færir okkur nær því takmarki að tileinka okkur alla þessa nýju tækni,“ sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Engey RE, er rætt var við hann af heimasíðu HB Granda í gær. Engey var þá á leiðinni frá Vestfjarðamiðum suður á karfaslóðina fyrir Suðvesturlandi.

Að sögn Friðleifs hófst veiðiferðin á þorskveiðum í Nesdjúpi. Þar voru tekin tvö hol en aflinn var ekkert sérstakur þann sólarhring. Betur gekk í kantinum út af Halamiðum og góð veiði fékkst einnig á Þverálshorninu áður en haldið var suður til karfaveiða.

,,Það er karfi í Víkurálnum en ég kaus að fara beint suður á Fjöllin, okkar heimamið, til að veiða karfann. Við náum þar um sólarhring á veiðum en við eigum að vera í höfn í Reykjavík nk. fimmtudagsmorgun,“ segir Friðleifur.

Svo sem kunnugt er þá kom Engey ný til landsins í byrjun ársins og hefur drjúgur tími farið í stillingar á ýmsum tölvubúnaði. Segja má að togátaki, veiðum og siglingu sé stýrt með tölvutækni og hið sama má segja um ýmsan annan búnað skipsins. Friðleifur og áhöfn hans hafa þurft að laga sig að hinni nýju tækni og það hefur gengið vel að sögn skipstjórans.

,,Það er eitt og annað sem komið hefur upp á en sem betur fer ekkert stórvægilegt. Við vitum að það verða einhverjir hnökrar á hinu og þessu til að byrja með en allt eru þetta stillingaratriði sem verða leyst. Hvað varðar nýjungarnar þá stendur sjálfvirka lestarkerfið upp úr. Þar er um byltingarkennda nýjung að ræða að mínu mati. Þetta er hrein snilld. Skipverjar setja bara fisk í körin og kalla svo tóm kör til sín. Vinna í lest heyrir sögunni til,“ segir Friðleifur Einarsson.

 

Deila: