Sjávarréttagratín
Nú ætlum við að gera vel við okkur, eins og reyndar nánast alltaf, þegar við borðum góðan fisk. Að okkar mati er fiskur bæði hollasti og besti matur sem hægt er að fá. Heilbrigðisyfirvöl víðast hvar í heiminum hvetja þegna sína til að borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku til að bæta heilsu sína og líðan.
Þessi uppskrift er sannkallaður veisluréttur og hæfir vel fyrir rómantískt kvöld fyrir fólk á öllum aldri. Uppskriftin er fengin af heimasíðunni gott í matinn og er hún komin frá Ungkokkum, klúbbi matreiðslumanna.
Innihald:
200 g smálúða
8 stórir humarhalar
100 g tígrisrækjur
100 g kartöflur
50 g shallott laukur
150 ml mjólk
1 tsk karrý
10 g kóríander
50 g hveiti
50 g smjör
1 stk egg
1 pk camembert ostur
Aðferð:
Smjör er brætt í potti og hveiti blandað við, mjólk er hituð í potti með karrýi og þykkt með hveiti og smjör blöndu. Shallottu laukurinn saxaður fínt og settur út í mjólkina, potturinn er tekinn af hellunni og eggi er pískað saman við . Kartöflurnar skornar gróft niður og soðnar í 6-8 mínútur í söltu vatni. Smálúðan, humarinn og tígrisrækjan er skorið gróft niður og sett út í mjólkurblönduna með grófsöxuðum kóríander og kartöflunum, þetta er allt sett í eldfast mót og camembert osturinn skorinn niður og dreift ofan á . Gott getur líka verið að nota rifinn ost yfir. Bakað á 220°C í 8-10 mínútur.