Polar Amaroq  aflahæsta skipið

Deila:

Grænlenska skipið Polar Amaroq var aflahæsta skipið á nýliðinni loðnuvertíð. Aflinn var 16.179 tonn. Geir Zoёga skipstjóri segir í samtali við heimasíðu SVN,  að vertíðin hafi verið draumi líkust og þeir á Polar hafi ávallt aðeins þurft að taka 2-4 köst til að fylla skipið sem lestar 2.500 tonn. Þá segir hann að veðrið hafi ekki skemmt fyrir – það hafi nánast verið samfelld blíða alla vertíðina. Geir segist hafa verið á loðnu í 15 vertíðir en hann hafi aldrei séð annað eins magn af loðnu á ferðinni og á þessari vertíð.

„Þetta var í reyndinni frábær vertíð frá A til Z og nánast ekki hægt að finna á henni neina galla. Mér fannst þó ekki veiðarnar standa upp úr heldur loðnuleitin, en við á Polar tókum þátt í báðum loðnuleitarleiðöngrunum sem Hafrannsóknastofnun efndi til eftir áramótin. Sérstaklega er leiðangurinn frá því í febrúar eftirminnilegur en þá mældist loks veruleg loðna og við mældum mestan hluta hennar. Samstarfið við Hafró í þessum leiðöngrum var hreint út sagt frábært og ég held að nú sé öllum ljóst að það er unnt að nota veiðiskip til loðnuleitar. Athyglisvert var einnig að við urðum nánast ekkert varir við hval á vertíðinni. Það sást aðeins hvalur við Stokksnes en svo hvarf hann gjörsamlega,“ sagði Geir.

Geir segir að kolmunnaveiðar séu næst á dagskrá hjá Polar Amaroq en skipið eigi 14.000 tonna kolmunnakvóta. „Svo erum við auðvitað farnir að hugsa um síld- og makrílveiðarnar í sumar og þær verða spennandi,“ sagði Geir að lokum.

 

 

Deila: