Ótrúlega góð reynsla af Dynice togtaugunum

Deila:

Nákvæmlega tíu ár voru í síðustu viku síðan togskipið Vestmannaey VE var útbúið með DynIce togtaugum í stað hefðbundinna togvíra. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri segir reynsluna af taugunum ótrúlega góða og þeim verði ekki skipt út fyrir víra á meðan hann ráði einhverju um útbúnað skipsins. Þetta segir hann í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar.
Birgir Þór Sverrisson

Það var ekkert sjálfgefið að DynIce togtaugar urðu fyrir valinu fyrir tíu árum enda var Vestmannaey fyrsta íslenska botntrolls togskipið þar sem DynIce togtaugar komu í stað togvíra. Birgir Þór segist vonandi muna það rétt en sér hafi þá verið sagt að aðeins eitt botntrolls togskip í heiminum notaði þá togtaugar.

,,Ég hafði tröllatrú á þessu nýja efni eftir að hafa notað það í grandara á frystitogaranum sem ég var áður með og nefnist einnig Vestmannaey. Það varð úr að útgerðin Bergur-Huginn keypti þrjá umganga af DynIce togtaugum fyrir Vestmannaey, sem þá var orðið togskip og svokallaður þriggja mílna bátur, ásamt Bergey VE og Smáey VE. Það kom fljótlega í ljós að tvö skip dugðu til að veiða kvótann og Smáey var því seld. Áhöfnin á Bergey ætlaði að nota togtaugarnar en náði aldrei almennilega tökum á þeim og það hefur því komið í okkur hlut að nota alla þrjá umgangana. Tveim höfum við skipt út og erum rétt nýbyrjaðir að nota þann þriðja, þannig að endingin er að lágmarki fimm ár og sennilega er hún töluvert lengri þótt við höfum verið í þeirri öfundsverðu stöðu að geta skipt taugunum út eftir fimm ára notkun,“ segir Birgir Þór en hann segir að þar með sé ekki öll sagan sögð.

,,Við eigum óhemju mikið af efni sem nýtist okkur í grandara og gilsa og við erum til dæmis farnir að nota gamla efnið í höfuðlínur sem við gerðum ekki áður. Það er einfaldlega vegna þess að þetta ofurefni ryðgar ekki og er því umhverfisvænt hvað það snertir.“

Kostir og ókostir

Birgir Þór segir að þótt því fylgi aðallega kostir að nota DynIce togtaugar í stað víra þá megi telja það ákveðinn ókost fyrir gömlu taugarnar að þær séu fullléttar í sjó ef togað er fyrir neðan 100 faðma.
,,Ef farið er niður fyrir þetta dýpi þarf ég að vera með meira af taugum úti til að sökkva þeim. Það stafar af loftinu sem er á milli kápuklæðningarinnar og tauganna. Við þessu hefur verið brugðist í framleiðslu á nýjum taugum með því að líma kápuna við taugarnar og eins eru þess dæmi að notað sé blý til þyngingar. Þetta hefur þó ekki verið mikið vandamál hjá okkur því við höfum mest verið að veiðum á 50 til 90 faðma dýpi. Annað, sem við þurftum að leysa, var að styrkja kjarnann í togspilunum vegna þess að það er meiri spenna í taugum en vírum. Þetta eru þó bara smámunir í samanburði við að það sér ekki á einni einustu togblökk eða vírastýringum eftir alla þessa notkun. Þá munar átta til níu tonnum á því hve skipið er léttara að aftan með því að vera með taugar en ekki víra. Það er því ekki spurning að þessi breyting hefur farið betur með skipið.“

Dynice taugar

En hvers vegna nota ekki aðrir á minni togskipunum DynIce togtaugar ef kostirnir eru ótvíræðir?

,,Það er eitt af því sem ég bara skil ekki. Án þess að ég viti hvað aðrir eru að hugsa þá dettur mér helst í hug að menn séu tregir til að tileinka sér nýjungar.“

Ævintýraleg aflabrögð

Er rætt var við Birgi Þór var Vestmannaey á leiðinni heim frá miðunum fyrir austan. En hvernig eru aflabrögðin?

,,Þau hafa verið ævintýralega góð allt frá því að verkfallinu lauk. Þessar veiðiferðir okkar hafa staðið í  einn og hálfan til tvo sólarhringa og það hefur dugað til að fá 60 til 90 tonn. Við reynum að blanda þessu sem mest en uppistaðan af aflanum er jafnan þorskur. Ýsuveiðar hafa sömuleiðis gengið vel. Við höfum mest verið að veiðum fyrir neðan 100 faðma dýpi en þar er nóg af fiski. Mér virðist sem að vertíðarþorskurinn hafi gengið á sín helstu svæði töluvert á undan loðnugöngunni og ég hef það á tilfinningunni að hann sé fyrr á ferðinni nú og í fyrra en oftast áður,“ segir Birgir Þór Sverrisson.

Myndir : Guðmundur Alfreðsson

 

Deila: