Georg Haney ráðinn umhverfisstjóri Hampiðjunnar

Deila:

Georg Haney hefur verið ráðinn í starf umhverfisstjóra hjá Hampiðjunni en hann hefur síðasta áratug starfað við veiðarfærarannsóknir hjá Hafró. Georg er þýskur að ætt og uppruna, frá borginni Jena í Þýskalandi, en hingað kom hann fyrst árið 2006 sem skiptinemi í Erasmus áætluninni.  Fyrir utan móðurmálið þýsku þá talar Georg ensku og íslensku eins og innfæddur.

 ,,Ég nam námuverkfræði við námudeildina við Háskólann í Freiberg í Saxlandi. Eftir að ég kom til Íslands ákvað ég að leggja stund á meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði hjá Háskóla Íslands,” segir Georg en eftir að hann útskrifaðist með meistaragráðuna árið 2010 var fyrsta starfið í verkefnastjórn Náttúrustofu Vestfjarða.

Georg Haney

 ,,Ég komst að því að ég kunni vel við lífið á Íslandi. Ég fékk starf sem sérfræðingur í veiðarfæramálum hjá Hafrannsóknastofnuninni á Ísafirði árið 2012 en starfið var síðan flutt til Hafnarfjarðar og ég ákvað að flytja með. Verkefnin voru tengd umhverfisáhrifum veiðarfæra, kjörhæfni þeirra og lífsferli og rusli í hafinu. Ég var svo með að auki umsjón með rannsóknaveiðarfærum fyrir stofnmat Hafrannsóknastofnunar.”

 ,,Fyrir hönd Hampiðjunnar mun ég halda utan um umhverfismál og tengd verkefni móðurfélags og dótturfélaga samstæðunnar. Þau mál eru að verða sífellt stærri þáttur í starfsemi Hampiðjunnar enda er metnaðurinn til að gera betur mikill bæði innan samstæðu Hampiðjunnar og hjá útgerðaraðilum. 

 Stærstu verkefnin framundan eru að innleiða umhverfisstefnu Hampiðjunnar á heimsvísu og vottun þeirra en nú þegar eru tvö fyrirtæki samstæðunnar, Hampidjan Baltic og Hampiðjan Ísland, vottuð samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001.  Einnig þarf að halda utan um kolefnissporið og reikna það heilstætt fyrir öll fyrirtækin. 

 Samhliða þessu þarf að vinna að ýmsum verkefnum sem snúa að lífsferli veiðarfæra,  umhverfisvænum veiðum, vöruþróun og veiðarfæraefni og hvernig tekið er á móti notuðum veiðarfærum, flokka þau og koma til endurvinnslu,” segir Georg.

 ,,Markmiðið er að öll dótturfélögin vinni samkvæmt sama gæðastaðli. Veiðarfærin sjálf eru ekki umhverfisvottuð heldur fyrirtækin sem þau framleiða. Ég hef mikinn áhuga á því hvernig vöruþróunin verður á komandi misserum og árum og Hampiðjan hefur alla burði til að leiða þessa þróun,” segir Georg Haney,  umhverfisstjóri Hampiðjunnar.

Deila: