Sea Data Center – Hátækni og ráðgjafafyrirtæki með einstakan gagnagrunn
Sea Data Center ehf. er nýtt hátækni- og ráðgjafafyrirtæki í sjávarútvegi sem hóf starfsemi í Sjávarklasanum í byrjun febrúar. „Sea Data Center er nýsköpunarfyrirtæki sem byggir á grunni greiningardeildar Marko Partners sem nú fær nýtt nafn í þeim tilgangi að leggja aukna áherslu á sérstöðu greiningarþjónustu okkar með það að markmiði að skapa fyrirtækjum í sjávarútvegi, grundvallar gögn til að auka virði viðskipta sinna. Sea Data Center ehf. býr yfir einstökum miðlægum gagnagrunni og fullkomnu kerfi sem hefur verið í þróun síðustu ár til úrvinnslu flókinna tölfræðigagna sem tengjast alþjóðlegum sjávarútvegi,“ segir í fréttum stofnun fyrirtækisins
Gagnagrunnur Sea Data Center er einstakur á heimsvísu og enginn önnur gagnveita í sjávarútvegi býr yfir þeim upplýsingum sem nálgast má á seadatacenter.com. Viðskiptavinir Sea Data Center eru: fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld í yfir 10 löndum auk þess sem tugir fyrirtækja í sjávarútvegi á Íslandi nota kerfið daglega til að hámarka virði viðskipta sinna. Á næstu mánuðum verður áhersla á frekari markaðssetningu erlendis. Við horfum bjartsýn til framtíðar vegna sérstöðu gagnagrunnsins og þeirra tækifæri sem háþróaður hugbúnaður Sea Data Center getur skapað fyrirtækjum í sjávarútvegi um allan heim.
„Okkur þótti vera kominn tími til að leggja aukna áherslu á þennan þátt starfseminnar. Með því að setja á fót sérhæft fyrirtæki verður bæði reksturinn og framtíðarsýnin skýrari. Samhliða þessu tekur eignarhald og stjórnun fyrirtækisins breytingum. Starfsmenn félagsins verða lykileigendur ásamt því sem tæknifyrirtækið Kóði gengur í hluthafahópinn og mun aðstoða við uppbygginguna,“ segir Anna Björk Theodórsdóttir, framkvæmdastjóri Sea Data Center ehf.
„Til þess að fagna þessum tímamótum vorum við með morgunverðarfund í gær um mikilvægi gagna í ákvörðunartöku, en þar var starfsemin einnig kynnt. Fundurinn var mjög vel sóttur.
Sea Data Center veitir markaðsupplýsingar fyrir sjávarútveg á alþjóðavísu. Um er að ræða margvíslegar tölulegar upplýsingar um stöðu á mörkuðum, s.s. veiðiþróun, markaðsþróun, verðþróun t.d. á uppboðsmörkuðum, útflutningsverð og verð smásala. Auk þess birtast þar eigin greiningar og annarra ásamt hlekkjum á sjávarútvegsfréttir. Um er ræða gögn sem ná allt frá kvótaúthlutun þar til fiskurinn er borinn á borð til neytandans.
Við erum þeirrar skoðunar að betur upplýstur markaður sé betri markaður og muni þannig leiða til þess að sjávarútvegsfyrirtæki geti náð betri árangri.
Við munum jafnframt auka breidd og dýpt þjónustunnar sem í boði verður og setja aukinn þunga í frekari greiningar á gögnunum sem að við erum að safna. Það mun þó ekki gerast á einni nóttu heldur með tíð og tíma.
Sea Data Center er tækni og nýsköpunarfyrirtæki en hvergi annarsstaðar í heiminum er til jafn mikið af stöðluðum gögnum fyrir sjávarútveg en við viljum jafnframt auka þungan á greiningarstarfið hjá okkur, en við höfum mikla þekkingu á því sem að er að gerast á markaðnum. Það er mikilvægt til þess að geta sett upplýsingarnar í samhengi. Það má líkja Sea Data Center við greiningardeildir fjármálafyrirtækja nema hvað fyrirtækið rýnir í sjávarútveg.
Hugmyndin að baki fyrirtækinu er að fá fólk til að leiða hugann að því hvers virði gögnin eru sem það hefur í höndunum og hvernig megi nýta þau betur til að stuðla að upplýstri ákvarðanatöku. Við erum þannig að aðstoða fyrirtæki við að nýta aðferðafræði sem lengi hefur verið þekkt m.a. í fjármálageiranum og er smám saman að ryðja sér til rúms í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Vöxtur fyrirtækisins verður erlendis. Við ætlum okkur að taka þátt í alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni í Brussel í fyrsta skiptið í vor og erum mjög spennt fyrir því,“ segir Anna Björk.
Meðfylgjandi mynd er frá kynningu fyrirtækisins. Jón Þrándur Stefánsson, stjórnarformaður kynnir fyrirtækið og starfsemi þess.