Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifar nemendur í 20. sinn.

Deila:

Brautskráning nemenda Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í 20 sinn fer fram mánudaginn 26. febrúar nk. Athöfnin fer fram í sal Hafrannsóknarstofnunnar, Skúlagötu 4 – 1. hæð og hefst kl. 15:00. Strax að henni lokinni, eða kl. 16:00, verður móttaka fyrir gesti á sama stað. Dagskráin er eftirfarandi.

 

  • Formaður stjórnar Sjávarútvegsskólans, Sigurður Guðjónsson, býður gesti velkomna.
  • Forstöðumaður Sjávarútvegsskólans, Tumi Tómasson, stiklar á stóru í sögu skólans.
  • Sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, ávarpar samkomuna.
  • Eftir úthlutun brautskráningarskírteina segir Romauli Napitupulu frá Indónesíu
    nokkur orð fyrir hönd nemenda.

Á þessu skólaári tók 21 nemandi þátt í sex-mánaða þjálfunarnámi Sjávarútvegsskólans. Koma þeir frá 15 löndum í Asíu, Afríku, Mið-Ameríku og Karíbahafi. Meirihlutinn er konur, eða 13 talsins. Átta sérhæfðu sig á sviði matvælaframleiðslu og gæðastjórnunar; sjö á sviði stofnmats og veiðafæratækni; og sex á sviði sjálfbærs fiskeldis.

Alls hafa 368 nemendur lokið námi frá skólanum frá upphafi. Þeir koma frá yfir 50 löndum, flestir frá Víetnam, Úganda, Kína, Kenía, Sri Lanka og Tansaníu. Skólinn hefur einnig útskrifað nemendur frá fölmörgum smáum eyríkjum þar sem sjávarútvegur er mikilvægur, eins og Kúbu, Jamaíku, Grænhöfðaeyjum og Fídjíeyjum.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður árið 1998 á grundvelli þríhliða samkomulags milli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, utanríkisráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar. Hann er rekinn í nánu samstarfi háskólasamfélagsins, stjórnvalda og atvinnulífs. Meðal samstarfsaðila á Íslandi má nefna Matís, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Hólaháskóla.

Meginviðfangsefni Sjávarútvegsskólans er að byggja upp færni og þekkingu meðal sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fiskeldis í þróunarlöndum. Umfangsmesti liðurinn í starfsemi skólans er sex-mánaða þjálfunarnámið, en það er haldið á hverjum vetri frá september til febrúar. Í náminu eru sérfræðingarnir efldir faglega og búnir undir að hafa áhrif á uppbyggingu sjávarútvegs í því starfsumhverfi er þeir koma frá.
Á myndinni eru nemendur Sjávarútvegsháskólans að kynna sér netagerð hjá Veiðarfæraþjónustunni í Grindavík.

 

 

Deila: