Stutt við snjallari vinnslu: Marel á sjávarútvegsráðstefnum

Deila:

Marel var virkur þátttakandi á sjávarútvegsráðstefnum um allan heim árið 2018. „Að taka þátt í slíkum ráðstefnum veitir Marel tækifæri til að deila sérþekkingu sinni á framförum í vinnslu og hlúa að nánu samstarfi sínu við fiskiðnaðinn,“ segir í yfirferð um ráðstefnur og sýningar á árinu á heimasíðu Marel:

Marel tók meðal annars þátt í North Atlantic Seafood Forum í Noregi, Global Fishery Forum and Seafood Expo í Rússlandi, og China Salmon Summit árið 2018. Samkomur sem þessar eru frábært tækifæri til þess að deila vinnsluþekkingu og sérfræðikunnáttu með fræðimönnum, rannsakendum, fjárfestum og alþjóðlegum samtökum.

Marel heldur einnig áfram að vera sýnilegt á alþjóðlegum sjávarútvegssýningum og leggur áherslu á að miðla tækniframförum í vinnslulausnum og búnaði sem bæta árangur í fiskvinnslu.

Ráðstefnur veita á hinn bóginn einstakt tækifæri til þess að kanna strauma í sjávarútvegi í stærra samhengi, framúrstefnulega möguleika í vinnslu, sem og lærdóm þvert á iðnaði og svo mætti lengi telja, með því að tengja saman breiðan hóp fagmanna og yfirvalda.


Snjallari vinnsla á North Atlantic Aeafood Forum

Þrettánda North Atlantic Seafood Forum ráðstefnan (NASF) fór fram dagana 6.-8. mars í Bergen, Noregi. Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri fiskiðnaðarseturs Marel, ávarpaði málstofu um Strandbúnað og laxavinnslu. Þar ræddi hann ríkan þátt hugbúnaðarframfara í aukinni sjálfstýringu matvælavinnslu auk þess sem hann fór yfir það hvernig verksmiðjur verða snjallari þegar hlutur hugbúnaðar eykst í framleiðsluferlinu.

„Samtengdar hugbúnaðarlausnir stjórna nú og vakta allt ferðalag fisksins, frá sjónum til stórmakaðarins,“ sagði Sigurður. „Þar að auki erum við að stíga inn í næstu iðnbyltingu þar sem gagnagnótt (Big Data) og djúptauganet verða órjúfanlegur þáttur í nýjustu hátækni vinnslukerfunum.“
Víkingar á Global Fishery Forum and Seafood Expo

Sigurður ræddi jafnframt þátt tækni og nýsköpunar í mótun sjávarútvegsiðnaðarins þegar hann tók þátt í pallborðsumræðunum „Ísland er ekki bara eldgos: Víkingar ræða nýsköpun og tækni í skipasmíði og fiskvinnslu“ á Global Fishery Forum í Sankti Pétursborg þann 15. september.
Á Salmon Industry Development Forum

Ef allar þær flökunarvélar sem Marel hefur framleitt og sett upp um allan heim væru keyrðar á sama tíma myndu þær vinna um 700.000 laxa á hverri klukkustund.

Þetta var ein af þeim skemmtilegu staðreyndum sem komu fram í kynningu Christian Bols – viðskiptastjóra fyrir lax hjá Marel – þegar hann ávarpaði fyrstu Salmon Industry Development Forum ráðstefnuna í Peking, 29. ágúst 2018. Efni erindisins var framtíðarstef í laxavinnslu á heimsvísu.

Alþjóðlegir sérfræðingar á Showhow

ShowHow Marel brúa bilið á milli ráðstefnu og sýningar þar sem framleiðendur víðs vegar að koma saman og fá hagnýta sýnikennslu á vél- og hugbúnað Marel. Tilkomumikill hópur gestafyrirlesara kom fram á ShowHow sýningum ársins og nutu viðskiptavinir okkar góðs af sérfræðiþekkingu þeirra. Þar gefst þeim einnig tækifæri til að taka þátt í málstofum og kynnast kollegum sínum í faginu.

Á Salmon ShowHow, 7. febrúar ræddi Trond Davidsen, forseti Alþjóðlegra samtaka laxaræktenda, strauma og áskoranir laxeldis í dag og sagði gestum frá væntingum sínum til framtíðarinnar í faginu. Grant Rosewarne, forstjóri og framkvæmdastjóri New Zealand King Salmon, kom einnig fram og lagði áherslu á sérkenni laxaiðnaðarins í Nýja Sjálandi samanborið við alþjóðlega laxamarkaðinn.

Hugbúnaðarvæðing og hraðar tæknibreytingar í fiskvinnslu voru til umræðu á Whitefish ShowHow þann 26. september þegar þeir Dag Sletmo, yfirforstöðumaður og sjávarútvegsgreinandi hjá DNB, einni fremstu fjármálasamsteypu Noregs, og Pétur Hafsteinn Pálsson forstjóri íslenska fiskvinnslufyrirtækisins Vísis hf. héldu erindi um þetta efni.
Ráðstefnur fyrir notendur Innova matvinnsluhugbúnaðarins

Sýnikennsla á Innova matvælavinnsluhugbúnað Marel fer alltaf fram á ShowHow sýningum en þar er farið yfir hvernig Innova bætir vinnsluafköst og framleiðslustýringu. Sjálfstæðar ráðstefnur fyrir notendur Innova eru einnig haldnar á ýmsum stöðum.

Tilgangur þessara ráðstefna er að safna fiskframleiðendum saman og hjálpa þeim að fullnýta þá möguleika sem Innova býður upp á. Þannig veita sérfræðingar markvissa kennslu og aðstoð á meðan viðburðinum stendur.

Innova ráðstefnan í Tromsø, Noregi, árið 2018 var sem sniðin að þörfum hvítfiskframleiðenda. Með því að tengja saman fræðilega og verklega sýnikennslu var áhersla lögð á að hjálpa þátttakendum að nota ólíkar Innova einingar til þess að hámarka nýtingu og afköst ýmiss vélbúnaðar frá Marel.

Rekjanleiki var meðal viðfangsefni á ráðstefnunni og sýnt var hvernig tryggja megi að Innova fái öll nauðsynleg gögn svo rekja megi vöru frá hráefni til fullunninnar afurðar.


Íslenska sjávarútvegsráðstefnan

Starfsmenn Marel voru jafnframt áberandi á Íslensku Sjávarútvegsráðstefnan 2018 sem fór fram í Hörpu dagana 15. og 16. nóvember. Anna Kristín Pálsdóttir og Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir voru til að mynda málstofustjórar en Haukur Hafsteinsson fór með erindið „Skilvirk vöruþróun í fiskiðnaði með hermun og sýndarveruleika“.

Þá héldu þeir Sindri Ólafsson, Hagalín Guðmundsson og Þröstur Snær Eiðsson erindið „Þjálfar maður vél“ á málstofu Önnu Kristínar um Framtíðartækni, auk þess sem Geir Þráinsson fór með erindið „Rekjanleiki í virðiskeðjunni“ á málstofu um Uppruna og umhverfismál.

 

Deila: