84% veidd af strandveiðikvótanum
Nú, þegar tvær vikur eru til loka strandveiðitímabilsins, er þorskaflinn orðinn um 8.700 tonn. Þó það sé rúmum þúsund tonnum minna en á sama tíma í fyrra, er það 84% leyfilegum heildarafla, sem er 10.200 tonn, samkvæmt samantekt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda..
Sé fyrst litið á gang veiða í ágúst, eftir níu leyfilega veiðidaga, er heildarafli orðinn 1.271 tonn, en á sama tímabili í fyrra var hann heldur minni eða 2.123 tonn. Á veiðisvæði A er aflinn þar sem af er ágústmánuði 523 tonn, en var í fyrra 847 tonn. Á svæði B er aflinn eftir þessa níu daga 339 tonn, en var í fyrra 542 tonn. Á svæði C er aflinn 239 tonn á móti 578 tonnum á sama tíma í fyrra. Afli á svæði D er nú 162 tonn, sem er sex tonnum meira en í fyrra.
Afli á svæði A frá upphafi strandveiða í ár er 3.929 tonn, sem er aukning um 238 tonn. Á svæði B er aflinn 1.616 tonn, sem er samdráttur um 579 tonn. Aflinn á svæði C er kominn í 1.569 tonn, sem er 785 tonnum minna en í fyrra og á svæði D hafa fiskast 1.454 tonn, sem er aukning um 57 tonn.
Aflahæstir á hverju svæði fyrir sig eru Grímur AK á svæði A með 45 tonn. Á svæði B er Svala EA aflahæst með 32,5 tonn, Birta SU er með mestan afla á svæði C, 40,2 tonn og á svæði D er Sæunn SF með mestan afla, 33,7 tonn.