Hvert prósentubrot í nýtingu er mikill ávinningur

Deila:

„Frá upphafi höfum við lagt megináherslu á að framleiða fiskvinnsluvélar sem skili notendum aukinni nýtingu og að þær sé stöðugar í rekstri, þ.e. að svokallaður uppitími sé sem lengstur. Hvert brot úr prósenti sem okkur tekst að ná í aukinni nýtingu skilar sér í ennþá hærri prósentutölu í verðmætaaukningu og þegar um er að ræða mikið magn í vinnslu þá verður ávinningurinn mikill á ársgrundvelli,“ segir Bjarmi Sigurgarðarsson hjá fyrirtækinu Vélfagi í Ólafsfirði í viðtali viðblaðið Sóknarfæri.

Starfsmenn voru þar í óða önn að setja saman flökunarvél sem fer í nýjan frystitogara sem er í smíðum í Noregi en að undanförnu hafa vélar Vélfags, bæði flökunarvélar, roðdráttarvélar og hausarar farið í nokkra frystitogara erlendis og hérlendis. Þar á meðal í Berlin og Cuxhaven, ný skip DFFU í Þýskalandi og í Sólberg ÓF 1, frystitogara Ramma hf.

Take Control tölvustýringarkerfið mikil bylting

bjarmi _velfag

Bjarmi segir mikla áskorun að framleiða vélasamstæðu í frystiskip enda mikil vinnsla allan sólarhringinn og skipin í löngum túrum á fjarlægum miðum. „Vélarnar okkar hafa staðið sig mjög vel og með þeirri tækni sem er í dag þá getum við með auðveldum hætti tengt okkur við þær, lagfært eða stillt ef á þarf að halda. Þannig fylgjum við þjónustunni eftir, hvar sem skipin eru í heiminum, ef svo má segja,“ segir Bjarmi. Vélfag framleiðir hausara og flökunarvélar fyrir bolfisk í tveimur stærðum, M705 og M725 og sú síðarnefnda er sérstaklega miðuð við vinnslu á stórum fiski. Þá framleiðir fyrirtækið tvær gerðir af roðdráttarvélum, M805 og M825. Á síðustu árum hefur fyrirtækið þróað tölustýrt gæða- og stjórnkerfi fyrir sínar vélar, svokallað Take Control kerfi, sem Bjarmi segir að hafi skilað byltingarkenndum framförum í þróun vélanna. Notendur geti nú með einföldum hætti unnið á skjá með alla stillingar og kallað fram fjölþættar upplýsingar um vinnsluna.

„Með tölvustýringunum getum við ná enn lengra en með mekaníska búnaðinum í því að auka nýtingu í vinnslunni. Ég var þess fullviss á sínum tíma að Take Control tölvustýringin skilaði góðum árangri, betri skurði og meiri nýtingu en get alveg viðurkennt að árangurinn er jafnvel enn meiri en ég bjóst við. Ávinningurinn er margþættur af þessari tækni; meiri hraði, rekjanleiki, hægt að breyta stillingum með auðveldari hætti og þannig má áfram telja. Og þessi tækni mun vafalítið opna ennþá meiri möguleika til áframhaldandi þróunar á vélbúnaðinum, til hagsbóta fyrir notendur vélanna. Tölvustýringar eru núna komnar í allar okkar vélar, mismunandi útfærð kerfi eftir hverri vélartegund fyrir sig,“ segir Bjarmi.

Víða tækifæri

Aðspurður segist Bjarmi vænta þess að meiri áhersla verði á næstunni í framleiðslu véla fyrir landvinnsluna, samhliða vélum fyrir sjóvinnslu. „Ég sé markaði fyrir okkar vélbúnað víða, bæði á sjó og í landi, hérlendis og erlendis, fyrir eldisfisk og villtan fisk. Tækifærin eru því næg en að undanförnu höfum við einbeitt okkur að vélum fyrir vinnsluskipin og erum ánægð með hvernig búnaðurinn reynist notendum,“ segir Bjarmi.

Deila: