Fyrsta loðnan til Helguvíkur
Fyrsta loðnan barst til fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Helguvík þriðjudagskvöldið 20. febrúar. Það var vinnsluskipið Hákon EA sem landaði þá 330 tonnum af fráflokkaðri loðnu.
Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri sagði í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að þó svo að þarna hefði ekki verið um mikið magn að ræða væru það ávallt tímamót þegar fyrsta loðnan á hverri vertíð bærist til verksmiðjunnar. Þá segir Eggert að mikilvægt hafi verið að fá þessi tonn til að gangsetja verksmiðjuna og prufa búnaðinn að loknu hléi, en afar vel hafi gengið að vinna hráefnið.
Verksmiðjan í Helguvík tekur fyrst og fremst á móti loðnu undir lok vertíða þegar hrognataka stendur yfir. Á síðustu loðnuvertíð tók verksmiðjan á móti um 16.000 tonnum.