„Ráðherra uppvís af þekkingarleysi“
Landssamband smábáta er ósátt við ákvörðum sjávarútvegsráðherra að fjölga veiðidögum á grásleppu um 10 í 46 daga. Í umfjöllun á heimasíðu LS er sagt að með ákvörðuninni sé litlu skeytt um hagsmuni grásleppusjómanna. „Verulega þungt hljóð er í mönnum vegna ákvörðunar ráðherra og eru símtöl hlaðin kröfu um að LS bregðist við með fullum þunga. Ráðherra er uppvís af þekkingarleysi á fyrirkomulagi grásleppuveiða og hvaða áhrif svona inngrip hefur,“ segir í færslu á heimasíðunni, sem er svohljóðandi:
„Að kvöldi sl. laugardags 29. apríl fóru að birtast fréttir af því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði ákveðið að fjölga veiðidögum á grásleppu. Fjöldi þeirra yrði 46 í stað 36 eins og ákveðið hafði verið.
Eins og fjallað hefur verið um hér á heimasíðunni hafði LS veitt ráðuneytinu umsögn við beiðni Vignis Jónssonar hf, sem er í eigu HB Granda, um fjölgun daga á yfirstandandi vertíð. Í umsögn LS til ráðuneytisins dagsett 18. apríl sl. var lagst gegn því að dögum yrði fjölgað meira en ákveðið hafði verið, úr 20 í 36. Fjölgun um fjóra daga frá vertíðinni 2016.
Það kom því LS og 173 grásleppuútgerðum gjörsamlega í opna skjöldu að ráðherra hefði tekið þessa ákvörðun. LS hafði engar spurnir af henni fyrr en fréttir af henni birtust í vefmiðlum og fréttum RÚV.. Með ákvörðuninni er litlu skeytt um skipulag og hagsmuni grásleppusjómanna. Alls höfðu 62 bátar lokið veiðum og þar með dregið upp öll net þegar tilkynnt var um ákvörðun ráðherra. Hægt er að fullyrða að aldrei í sögunni hefur uppákoma sem slík úr stjórnsýslunni hent grásleppusjómenn.
Verulega þungt hljóð er í mönnum vegna ákvörðunar ráðherra og eru símtöl hlaðin kröfu um að LS bregðist við með fullum þunga. Ráðherra er uppvís af þekkingarleysi á fyrirkomulagi grásleppuveiða og hvaða áhrif svona inngrip hefur.
Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er tilkynnt að reglugerð um fjölgun veiðidaga um 10 taki gildi næstkomandi miðvikudag 3. maí. Ákvörðunin er því formlega ekki komin til framkvæmda. Stjórnsýsla ráðherra hefur þar af leiðandi skapað fjölda vandamála.
T.d. er spurt: Hvað með þá sem búnir voru að virkja strandveiðileyfi, en vilja nú veiða grásleppu lengur. Virkjun strandveiðileyfis fellir niður rétt til annarra veiða. Í hvaða sporum standa þeir.
Um helgina hefur verið reynt að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin. LS hefur fengið svör úr ráðuneytinu að veiðitímabil verði lengt í samræmi við fjölgun daga. Þá hefur Fiskistofa lýst því yfir að leitast veri við að fresta gildistöku strandveiðileyfa hjá þeim aðilum sem æskja þess. Auk þess mun Fiskistofa ekki gera kröfu um að aðilar sem hyggjast halda áfram grásleppuveiðum dragi net sín upp.
Óskað verður eftir frekari rökstuðningi ráðherra fyrir ákvörðun sinni, því fátt heldur vatni sem kemur fram á vef ráðuneytisins..