„Þetta verður frábær aðstaða“

Deila:

Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Grindavíkurhöfn. Verið er að stækka hafnarbakkann Miðgarð verulega, reka niður nýtt stálþil, dýpka höfnina og steypt verður nýtt dekk á bakkann.

IMG_7531„Febrúar er búinn að vera afskaplega erfiður við okkur út af roki. Vindurinn hefur verið það mikill að þeir hafa ekki náð að reka niður, nema örfáar þilplötur. Plötunum er krækt saman að ofan í 15 metra hæð og rennt niður að botni áður en þær eru reknar niður. Við það er ekki hægt að eiga ef einhver sláttur er á plötunum. Síðan hefur verið bilun í gröfu sem verktakarnir erum með um borð í prammanum og þannig hefur eitt og annað verið að angra okkur fyrir utan veðrið,“ segir Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík.

„Þetta horfir nú allt til betri vegar og þeir eru byrjaðir á plötunum aftur og byrjaðir að steypa kantinn hér á vesturendanum og þar gætu bátar farið að leggjast að eftir mánuð. Menn geta þá byrjað að máta sig við nýjan Miðgarð. Verkinu verður svo haldið áfram og þessi áfangi er nokkurn vegin á áætlun og endanlegum frágangi gæti verið lokið í lok maí. Þó það dragist eitthvað kemur það ekki að sök því Vegagerðin er að fara í útboð á þekjunni og vonandi verður hægt að klára hana í sumar. Þegar búið verður að reka stálþilið niður út á enda er hægt að byrja á þekjunni þar sem öðrum frágangi er lokið,“ segir Sigurður. Hann fer svo nánar út í framkvæmdirnar.

Bjóða hitaveitu við bryggjuna

„Miðgarður er færður fram um fimm metra og síðast en ekki síst er dýpkað verulega við bryggjuna  alveg niður á 8 metra, sem er mjög  gott fyrir þann flota sem við erum með og sjáum fram á að muni koma hér. Því munu menn ekki lengur þurfa að sæta sjávarföllum til að komast að og frá bryggju, en dýpið austast við garðinn var ekki nema 3,5 metrar og það dugir ekkert. Þetta verður því allt önnur aðstaða.

Við erum að velta því fyrir okkur að vera með hita í þekjunni þannig að planið verði alltaf íslaust að hluta til. Þá er einnig verið að tala um að bjóða skipunum hitaveitu um borð. Ég er á því að það sé það eina rétta. Við vitum ekki hver þróun á raforkuverði verður. Eftirspurn eftir raforku er alltaf að aukast og verðið gæti alveg hækkað upp úr öllu valdi. Þá væri stórkostlegt að geta boðið upp á heitt vatn til upphitunar, sem er stærsti kostnaðarliðurinn fyrir skipin, þegar þau liggja við bryggju.“

Krefjandi tímar

Nú eru mjög krefjandi tíma framundan hjá höfninni. Vetrarvertíð komin á fullt og bátarnir róa hér fyrir sunnan og vilja landa í heimahöfn. Það er þegar orðið mikið púsluspil að koma skipum og bátum að til löndunar, þegar helsta löndunarbryggjan, Miðgarður, er frá vegna endurbóta. Þar fara út 250 metrar af leguplássi meðan framkvæmdirnar standa yfir. „Nú er gangur mála orðinn þannig að þegar skipin koma að landi fer áhöfnin frá borði og enginn er eftir til að færa þau að lokinni löndun. Það er því svolítið vesen að færa skipin að lokinni löndun, yfir á aðra bryggju eða utan á önnur skip. Þetta verður krefjandi verkefni. Meðan á þessu stendur er landað á Norðurgarði, Eyjabakka, Suðurgarði og Kvíabryggju.“

Veðrið í febrúar hefur ekki bara tafið hafnargerðina, heldur líka orðið til þess að færri bátar hafa komið tillöndunar í Grindavík. „Innsiglingin hefur verið ansi óárennileg oft á tíðum vegna brælu . Það hefur samt fiskast vel og menn hafa þráast við og komið hingað þeir sem þekkja vel til þrátt fyrir mikið brim. En þetta er allavega miklu betra en í fyrra, þegar verkfallið var. Það alltaf fyrsti kostur hjá heimabátunum að koma hingað til löndunar ef þess er nokkur kostur.“

Stóru línubátarnir úr Grindavík og togbátarnir hjá Gjögri halda sig á heimaslóðum frá áramótum og fram á sumar. Sama er að segja um minni beitningarvélabátana. Þá er yfir leitt tekin pása um hásumarið og síðan haldið norður um kvótaáramótin og verið þar fram undir jól. Sigurður segir að á sumrin landi humarbátar frá Skinney-Þinganesi oft í Grindavík  sérstaklega þegar humarinn er að veiðast á vestursvæðinu og svo hafi verið í sumar, en sumarið hafi verið lélegt á strandveiðinni.

Höldum áfram að veita góða þjónustu

Kostnaður við verkefnið, sem nú stendur yfir var áætlaður um 280 milljónir, en Sigurður segir að aðeins hafi verið bætt við verkið. Til dæmis að dýpka meira út frá þilinu. „Við hönnunina var gert ráð fyrir 5 metra breiðri rennu, en okkur fannst það ekki vera nóg og fórum með breiddina í 12 metra. Þegar skipin eru 8 til 10 metra breið, eru 5 metrar einfaldlega ekki nóg. Þess vegna hefur kostnaðurinn hækkað um 40 milljónir.

Við erum þannig í sveit sett hér í Grindavík að til að dýpka þarf að bora og sprengja og það er mjög dýrt meira en 10 sinnum dýrara en að moka eða dæla. En á móti kemur að dýpkunin er varanlegri svona. Við erum bara bjartsýn hér. Allir bíða spenntir eftir því að þetta mannvirki komist í gagnið. Við höldum áfram að veita skipunum okkar góða þjónustu. Þetta verður frábær aðstaða, þegar allt verður klárt,“ segir Sigurður hafnarstjóri.

Myndirnar af framkvæmdunum tók Jón Steinar Sæmundsson.

Miðgarður framkvæmdir Jón Steinar

Deila: