Leggja til auðlindagjald í Færeyjum

Deila:

Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hefur lagt fram frumvarp til laga um auðlindagjald í sjávarútvegi. Frumvarpið verður sent til umsagnar hjá þeim sem hagsmuna hafa að gæta. Markmið laganna er að þeir sem hafa ávinning af fiskveiðum greiði fyrir hann sérstakt auðlindagjald.

„Hinn mikli ábati“ eins og segir í frétt frá færeyska sjávarútvegsráðuneytinu, verður reiknaður út frá nýjustu afkomutölum útgerðarinnar skipt á útgerðarflokka, þar sem fram kemur heildarafkoma útgerðarinnar og hver ávinningurinn er fyrir hvern flokk og hvern veiðiskap.

Þegar fyrir liggur hverjar tekjurnar eru innan hvers útgerðarflokks, verður rekstrarkostnaður, þar með taldar greiðslur til áhafnar, dreginn frá.

Hagnaður sem hlutfall að söluverði hverrar fiskitegundar verður grunnurinn fyrir gjaldið á viðkomandi ári. Allar útgerðir í sama útgerðarflokki skulu greiða sama gjald á hvert kíló, þannig að það verði keppikefli fyrir útgerðirnar að fá sem mest fyrir aflann hverju sinni.

Í frumvarpinu telst hagnaður yfir 10% sem mikill ávinningur. Af þeim ávinningi verða 70% tekin í auðlindagjald.

Þá verður auðlindagjaldið lagað að þeim aðstæðum, þegar veiðiheimildir hafa verið keyptar af hinu opinbera á uppboði. Þannig kemur verð hinna keyptu heimilda til frádráttar á veiðigjaldinu.

Samkvæmt frumvarpinu munu lögin ekki taka gildi að fullu fyrr en 2020 og verður gjald til bráðabirgði innheimt fyrir árin 2018 og 2019.

 

Deila: