Piparostgljáður þorskhnakki með kúskúsi

Deila:

Þorskurinn er konungur fiskanna. Á því er enginn vafi. Hann hefur þjónað Íslendingum öldum saman, haldið í okkur lífinu og verið okkar helsta útflutningsafurð frá því landnám hófst. Hann var í fyrstu þurrkaður og síðan saltaður til útflutnings og nú á síðari árum fer hann utan saltaður og ferskur á helstu matarmarkaði austan hafs og vestan.
Þorskurinn er einstaklega auðveldur í matreiðslu og hann má elda á meira en milljón vegu. Þessa þægilegu og góðu uppskrift fundum við í uppskriftabók frá Mjólkursamsölunni sem ber heitið Ostur – það besta úr osti og smjöri.

Innihald:

800 g þorskhnakki
1 piparostur
1 sítróna
salt
Nýmalaður pipar.

Kúskús:

150 g kúskús
150 ml vatn
30 g rúsínur
30 g furuhnetur
¼ paprika
¼ pakkning ferskur kóríander
salt
pipar

Aðferð:

Snyrtið þorskhnakkana og skerið í um 200 g bita. Það má hvort heldur sem er setja þorskinn beint í eldfast mót eða steikja hann á pönnu, fyrst öðru megin. Smyrjið eldfasta mótið að innan með olíu, setjið þorskinn ofan í, kreistið sítrónuna yfir, saltið og piprið og raðið piparostsneiðunum ofan á. Bakið í ofni í 6-9 mínútur við 180°C.

Skerið paprikuna og kóríanderinn. Blandið þessu saman við rúsínur, hnetur og kúskúsi. Sjóðið vatnið og hellið því yfir. Látið standa í 5 mínútur með loki, kryddið sem salti og pipar og berið fiskinn fram ofan  á þessu.

 

Deila: