Steikt ýsa með rækjum, stökkum möndlum og hvítlauk

Deila:

Langlífi og heilbrigði Íslendinga hefur löngum verið sett í samhengi við mikla fiskneyslu en samkvæmt Embætti landlæknis er öllum yfir tveggja ára aldri ráðlagt að borða fisk sem aðalrétt tvisvar til þrisvar í viku. Fiskur er ekki aðeins góður próteingjafi því hann inniheldur einnig önnur mikilvæg næringarefni svo sem selen og joð.

Gott er að borða magran fisk, svo sem ýsu og þorsk, en jafnframt er mælt með því að ein af máltíðunum sé feitur fiskur þar sem hann er sérlega ríkur af D-vítamíni og löngum ómega-3 fitusýrum. Þau næringarefni eru vandfundin í öðrum matvælum en sjávarfangi. Dæmi um feitan fisk eru lax og bleikja auk þess sem gullkarfi telst millifeitur, en rannsóknir hafa sýnt að regluleg neysla á feitum fiski geti dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum.

Þennan góða texta er að finna á síðunni http://fiskurimatinn.is/ sem Norðanfiskur hefur nýlega hleypt af stokkunum. Þar er að finna margar virkilega fínar fiskuppskriftir. Höfundur þessarar uppskriftar er Leifur Kolbeinsson yfirmatreiðslumaður á Marshall veitingahúsi + bar. Marshall veitingahús er við síldarbryggjuna í Reykjavík og leggur meðal annars áherslu á ferskan fisk.

Innihald:

800 g ýsa

200 g rækjur

160 g heilar möndlur með hýði

Salt og pipar

Safi úr 1 sítrónu

2 knippi steinselja, söxuð

Ólífuolía

100 g smjör

Aðferð:

Saxið möndlurnar í u.þ.b. þrennt og setjið í eldfast mót, blandið smá ólífuolíu og saltið smá. Bakið við 150°C í u.þ.b. 15–20 mín. án þess þó að þær brenni. Bræðið smjörið á pönnu og steikið ýsuna á snarpheitri pönnunni, kryddið með salti og pipar. Stráið yfir söxuðu möndlunum ásamt safanum úr sítrónunni og rækjunum, veltið á pönnunni í smá stund og berið fram.

Deila: