Ný loðnuganga fyrir Norðurlandi
Loðna er nú farin að ganga inn að Norðurlandi og austur með því. Að minnsta kosti þrjú skip fengu þar afla í fyrrinótt og gær og gærkvöldi. Jafnframt var enn veiði í gær úr fyrri göngunni sem var þá vestur af Látrabjargi og meðal annarra skipa sem þar fengu afla var Heimaey VE. Þeir voru í gærkvöldi á leið til Eyja með rúm 2.000 tonn.
„Við segjum allt þokkalegt, það er eitthvað töluvert af loðnu hér,“ sagði Helgi Valdimarsson, skipstjóri á Ísleifi VE, þegar kvotinn.is hafði samband við hann í gærkvöldi. „Við erum komnir með 750 til 800 tonn og erum að draga. Við ætlum að reyna að vera með þúsund tonn í frystingu. Loðnan hér er ekki hæf til hrognatöku ennþá. Hún er mikið styttra komin en sú, sem við vorum að veiða í síðasta túr, mun minni hrognafylling. Þetta er önnur ganga og loðnan í henni heldur smærri en í fyrri göngunni, en mjög gott hlutfall af hrygnu, 60 til 70%,“ sagði Helgi.
Þeir voru þá út af Fljótunum. Börkur og Ásgrímur Halldórsson voru þar í dag en voru báðir farnir til löndunar með afla eftir nóttina og í gær. Hákon var svo á leiðinni og þeir ætla að reyna frysta loðnuna um borð.