Samdráttur í sölu á laxi og uppsjávarfiski

Deila:

Umtalsverður samdráttur í sölu afurða úr uppsjávarfiski og laxi frá Færeyjum á fyrstu átta mánuðum ársins leiddi til þess að heildarverðmæti útflutnings sjávarafurða féll um 12% eða um 11 milljarða íslenskra króna. Magnið dróst saman um ríflega 5.000 tonn eða 2%.

Þegar litið er á verðmætið var það samtals um 90 milljarðar íslenskra króna. Laxinn skilar langmestu verðmæti eða ríflega 36 milljörðum króna. Engu að síður hefur útflutningsverðmæti hans fallið um 8 milljarða íslenskra króna, eða um 17%.

Sala á þorski, ufsa og ýsu skilaði nú um 16 milljörðum króna, sem er vöxtur um 7%. Verðmæti útfluttra afurða úr uppsjávarfiski, síld, makríl og kolmunna féll um 5,7 milljarða og var nú 9,7 milljarðar. Samdrátturinn er 37%. Þá varð 5% samdráttur í útflutningi á öðrum fiskafurðum, en sala á mjöli og lýsi jókst um 1,8 milljarð króna eða 64%.

Samtals fóru utan 287.462 tonn af sjávarafurðum á umræddu tímabili, sem er samdráttur um 5.044 tonn eða 2%. Af þorski, ýsu og ufsa fóru 28.699 tonn utan. Það er vöxtur um 2%. Magnið í uppsjávarfiskinum var samtals 102.099 tonn, sem er fall um 14.030 tonn eða 12%. Útflutningur á laxi nam 36.644 tonnum og féll um 5.000 tonn eða 12%. Það vekur athygli að hlutfallslegur samdráttur í laxi og uppsjávarfiski er mun meiri í verðmæti en magni.  Það bendir til þess að afurðaverð hafi lækkað nokkuð eða samsetning afurða hafi verið óhagstæð, það er að hlutfall ódýrari tegunda eða afurða af heildinni hafi verið hærra nú en í fyrra.

Útflutningur á öðrum fiski en ofangreindum nam 38.570 tonnum,  sem er aukning um 5.925 tonn eða 18%. Þá fóru utan 81.450 tonn af fiskimjöli og lýsi, sem er vöxtur um 7.822 tonn eða 11%.

Deila: