Hagræðing sem ekki er hægt að horfa framhjá

Deila:

„Sú hagræðing sem við sjáum við að hætta vinnslu á Akranesi og vinna þann fisk þess í stað í fiskiðjuveri okkar við Norðurgarð er svo ótvíræð að ekki er hægt að horfa framhjá henni. Sérstaklega í rekstrarumhverfi eins og það er núna. Við erum að fá sama verð í evrum fyrir kg af þorski upp sjó og fyrir tveimur árum. Á sama tíma hefur launakostnaður hækkað um 73% í evrum. Þessa vegna teljum við ekki hjá þessum áformum komist, en hver endanleg niðurstaða verður á eftir að koma í ljós eftir að viðræðum HB Granda og Akranesbæjar og fleiri aðila lýkur. En hvernig sem á hlutina er horft er það samfélagsleg skylda okkar að reka fyrirtæki sem skilar hagnaði og gefur af sér til samfélagsins.“

Vilhjálmur Vilhjálms

Þetta segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda í samtali við Ægi. Í viðtalinu er farið yfir rekstrarumhverfið í sjávarútveginum um þessar mundir og þær aðgerðir sem HB Grandi hyggst grípa til, til að bregðast við erfiðri stöðu. Segja má að sami vandinn blasi við öllum fyrirtækjum í sjávarútvegi, en möguleikinn til hagræðingar sé misjafn. Vilhjálmur byrjar á að lýsa rekstrarumhverfinu:

Sterkt gengi ríður baggamuninn

„Það eru miklar sviptingar í gengismálum, sem við höfum verið að glíma við og horfum fram á gera áfram. Styrking krónunnar hefur komið ansi þungt niður á útflutningsgreinunum. Ef við tökum fyrirtæki sem byggir afkomu sína að miklu leyti á evru og gerir upp í evru skiptir miklu hvort gengið er einhvers staðar í kringum 115 til 120 krónur eða 145 til 150 krónur. Á því er regin munur. Því þurfa menn að horfast í augu við allt annan veruleika sem blasir við en fyrir um ári síðan. Það er ekki mikið lengra síðan að menn voru að óttast mikið gengisfall krónunnar við afnám hafta. Með haustinu og þegar líða fór á veturinn fóru menn að tala um það að krónan myndi styrkjast við afnám hafta, en voru kannski ekki allir trúaðir á það. En raunin er þessi og nú telja menn að gengið verði sterkt áfram og muni jafnvel styrkjast í sumar og að evran gæti farið alveg niður í 100 krónur í haust eða lok árs. Staðan í gengismálum sem virðist vera framundan er því dálítið önnur en menn gerðu ráð fyrir. Innlendur kostnaður hækkar, launahækkanir sem orðið hafa koma náttúrulega fram í allri innlendri þjónustu og viðhaldi og launakostnaði vegna starfsfólks í landi.

Ef við höldum okkur við evruna erum við nú að fá svona svipað afurðaverð miðað við kíló af þorski upp úr sjó og fyrir tveimur árum. Launakostnaður hjá okkar fiskverkafólki hefur hækkað um 73% á sama tíma. Síðan kemur launahækkun í júlí upp á 4,5% og aftur í ágúst 1,5%. Það er því orðin ansi breytt sýn sem við blasir þarna. Við komum þessum miklu kostnaðarhækkunum ekki út í verðlagið og verðum því að hagræða í rekstrinum,“ segir Vilhjálmur.

Afurðaverðið nokkur breytilegt

„Verðlækkanir á afurðum eru nokkuð breytilegar. Til dæmis var fínasta verð á þurrkuðum afurðum fyrir tveimur árum og stór hluti þorsksins, eða um 40% af þyngd hans, fer í þurrkaðar afurðir. Nú fæst lítið fyrir þær. Sjófrystur karfi hefur lækkað verulega í verði, en það er út af lokun Rússlandsmarkaðar. Mjög erfiðlega hefur gengið að fá nýja kaupendur þar. Verð á frystum uppsjávarafurðum hefur á hinn bóginn haldið sér mjög vel. Þrátt fyrir lokun Rússlandsmarkaðar tókst tiltölulega fljótt að finna makrílafurðum farveg og eins síldinni. Það hefur ekki reynt á frystan loðnuhæng enn, því það hefur engin frysting verið á honum þar sem vertíðin hófst svo seint í ár. Verð á mjöli og lýsi var í hæstu hæðum í fyrra, en hefur lækkað töluvert nú, en er engu að síður alveg þokkalegt. Það er samt 30 til 40% lægra en það var í haust.“

Landvinnsla botnfisks

Undanfarin ár hafa togarar félagsins landað afla sínum í Reykjavík. Drjúgur hluti aflans hefur síðan verið fluttur landleiðina til Akranes til vinnslu og síðan til baka aftur eða framhjá Reykjavík til útflutnings. Þannig má áætla að óbreyttu í ár verði um 8.000 tonnum af þorski ekið í gegnum Reykjavík til Akraness til vinnslu og síðan um 4.000 tonnum aftur til Reykjavíkur til útflutnings í gámum, um 500 tonnum til Keflavíkurflugvallar til útflutnings með flugi og um 3.500 tonnum til Reykjaness til þurrkunar.

„Það blasir við að þessir flutningar hafa verið og eru óhagkvæmir. Þeir hafa þó ekki leitt til taps á undanförnum árum en nú blasir við töluvert tap af þessari starfsemi. Við höfum aðstöðu til að vinna allan aflann í Reykjavík og spara flutningskostnað og þá mengun sem flutningnum er samfara.

Í dag erum við með þrjár vinnslulínur í fyrir botnfiskvinnslu tvær fyrir ufsa og karfa í Reykjavík og eina fyrir þorsk á Akranesi. Með því að vinna allan aflann í Reykjavík erum við að fækka vinnslulínum um eina því við getum nýtt sömu vinnslulínu fyrir ufsa og þorsk.

Félagið hefur í störfum sínum haft það að leiðarljósi að styrkja við og efla þau samfélög sem það starfar í hverju sinni. Undanfarin ár hefur HB Grandi unnið að því að styrkja rekstur sinn á Akranesi. Félagið keypti meðal annars fiskþurrkunina Laugafisk ehf. með það að markmiði að renna frekari stoðum undir vinnslu þorsks á Akranesi. Hefðu markmið um eflingu þurrkunarinnar gengið eftir hefðu um 3.500 tonn af hausum og hryggjum orðið eftir á Akranesi til frekari vinnslu. Þurrkunin fer nú fram hjá Haustaki á Reykjanesi,“ segir Vilhjálmur.

HB Grandi keypti á árinu 2014 félögin Norðanfisk og Vigni G. Jónsson en bæði félögin starfa á Akranesi. Störfum hefur farið fjölgandi hjá báðum félögum og er stefnt að eflingu og frekari uppbyggingu beggja félaga. Félagið hefur ítrekað áform sín um að styrkja þá starfsemi sem er fyrir á Akranesi í dag.

Hefur ekkert með veiðigjöld að gera

Forsvarsmenn HB Granda og Akraneskaupstaðar eiga nú í viðræðum um framtíðarsýn að beiðni Akraneskaupstaðar og stefna að niðurstöðu sem fyrst. „Það er hins vegar rétt að ítreka það að sú hagræðing sem við sjáum fram á við að hætta botnfiskvinnslunni á Akranesi og vinna þann fisk þess í stað í fiskiðjuveri okkar við Norðurgarð er svo ótvíræð að ekki er hægt að horfa framhjá henni.

Ákvarðanir um að standa að hópuppsögnum eru ekki teknar af léttúð eða sem hluti af leikáætlun. HB Grandi hefur haft fulla ástæðu til að vera stolt af starfsfólki sínu. Að loknu löngu verkfalli sjómanna sneri fiskverkafólk félagsins allt til starfa. Reyndar er sótt í störf hjá félaginu og er sáralítil starfsmannavelta sérlega ánægjuleg. HB Grandi var eitt fárra félaga sem ekki sleit ráðningarsambandi við sitt starfsfólk á meðan á verkfalli stóð og vakti það ánægju bæði starfsfólks og verkalýðsfélaga.

Að lokum er rétt að ítreka að verði að áformum félagsins um að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi 1. september næstkomandi mun félagið gera sitt besta að til að styðja og aðstoða starfólk vinnslunnar við að finna önnur störf innan félagsins sem utan,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Tvö óskyld mál

HB Grandi VopnafjörðurÍ umræðunum að undanförnu hafa komið fram ásakanir á hendur stjórnendum HB Granda þess efnis að á sama tíma og fyrirhugað sé að hætta vinnslu á Akranesi, sé verið að byggja upp nýja vinnslu á Vopnafirði. Vilhjálmur segir að það séu tvö aðskilin mál.

„Þegar við förum af stað með þetta verkefni á Vopnafirði var það aldrei hugsað öðru vísi en reyna að halda fólki þar á staðnum. Til að reyna að koma í veg fyrir fólksflótta. Við erum með fólk þarna sem við sáum fram á að gæti aðeins verið í vinnu niður í 5 til 6 mánuði á ári við uppsjávarvinnsluna okkar þar. Það segir sig nokkuð sjálft að það var ekki að ganga. En þessi mánuðir sem okkar fólk á Vopnafirði er að vinna við vinnslu á uppsjávarfiski er að skila okkur miklum tekjum. Því var ekkert um annað að ræða að okkar mati að bregðast við og brúa þetta vil. Að fara út í bolfiskvinnslu þegar vinnsla á uppsjávarfiski liggur niðri var leiðin til þess. Við sjáum fram á að við verðum að vinna um 700 tonn af þorski þarna á þessu ári. Við keyptum í haust 1.600 þorskígildi af Hafnarnesi-Ver til að standa örugglega undir þessari vinnslu og að hún kæmi ekki niður á öðrum rekstri í félaginu. Þannig að þetta er algerlega aðskilið og óskylt mál.“

Viðtalið birtist fyrst í nýjasta tölublaði Ægis.

 

 

Deila: