Enn einn metmánuðurinn hjá Vestmannaey og Bergey
Útgerðarfélagið Bergur-Huginn ehf., dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar, gerir út togarana Vestmannaey VE og Bergey VE. Vestmannaey og Bergey eru systurskip, svonefndir þriggja mílna bátar, 291 tonn að stærð og 29 metrar að lengd. Nýliðinn marsmánuður var metmánuður hjá skipunum, en þau hafa aldrei fiskað jafn mikið í einum mánuði.
Afli Vestmannaeyjar í mánuðinum var rúmlega 699 tonn og afli Bergeyjar rétt tæp 699 tonn. Samtals báru því „Eyjarnar“ um 1.400 tonn af aðgerðum fiski að landi í þessum eina mánuði en það mun samsvara um 1.570 tonnum af óaðgerðum fiski.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir í samtali á heimasíðu SVN, að fiskiríið hafi verið einstaklega gott að undanförnu. „Það hafa verið megagóð aflabrögð. Við höfum mest verið í Háfadýpinu en þar fæst mest þorskur og dálítið bland með. Þegar við veiðum þarna erum við um hálftíma á miðin frá Vestmannaeyjum. Þarna hefur verið gríðarlegt magn af þorski og við höfum fyllt á skömmum tíma. Þetta er aðgæsluveiði – við þurfum sífellt að passa okkur á að fá ekki of mikið. Við höfum einnig farið austur á Síðugrunn og Öræfagrunn til að ná í ýsu og það hefur gengið vel. Það eina sem skyggir á þetta góða fiskirí eru verðin á fiskinum. Verðin eru gjarnan 20% lægri en á sama tíma í fyrra. Nú er komið að hrygningarstoppi og við ætlum að taka gott páskafrí. Ráðgert er að halda til veiða á ný á annan í páskum,“ sagði Jón.