Fín veiði í góðu veðri

Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK lét úr höfn í Reykjavík í fyrradag eftir að hafa komið þangað með 165 tonna afla úr velheppnaðri veiðiferð á Vestfjarðamið. Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á Helgu Maríu, minnist þess ekki að hafa fengið aðra eins veðurblíðu á Vestfjarðamiðum á þessum árstíma.

En svo vikið sé nánar að aflabrögðunum þá segist Heimir hafa byrjað veiðarnar í Víkurálnum.

,,Þar fengum við þokkalegan karfaafla, a.m.k. nóg fyrir vinnsluna. Við fórum svo norður eftir kantinum og vestast í kantinum, áður en við komum á Halamið, fengum við þann þorskafla sem við þurftum. Það var lítil veiði á sjálfum Halanum, helst smávegis af ufsa, og við fórum því aftur í Víkurálinn,” segir heimir í samtali á heimasíðu HB Granda.“

Svo vel bar í veiði að þegar áhöfnin á Helgu Maríu kom aftur í Víkurálinn, gaf ufsinn sig til.

,,Það kom gott ufsaskot í veiðina á meðan við stöldruðum við og við fengum fínan ufsaafla síðustu dagana í veiðiferðinni. Nú spáir hins vegar brælu á Vestfjarðamiðum næstu dagana þannig að lítið vit er í að fara beint þangað. Við byrjum þessa veiðiferð því á heimamiðum út af Suðvesturlandi,“ segir Heimir Guðbjörnsson.

 

Deila: