Gera klárt fyrir loðnuveiðar

Deila:

Hafnrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson eru úti fyrir Vestfjörðum á leið til Hafnarfjarðar eftir að hafa mælt loðnu úti fyrir Norðurlandi. Sömuleiðis hafa þrjú uppsjávarskip sem tóku þátt í loðnumælingum fyrir austan land lokið sínum verkefnum. Búist er við að Hafrannsóknastofnun gefi síðar í vikunni út endurnýjaða veiðiráðgjöf en aukinnar bjartsýni gætir á aukningu loðnukvótans út frá þeim fregnum sem borist hafa frá leitarskipunum síðustu vikuna.

Vonir um að óhætt verði að hefja loðnuveiðar af krafti innan fárra sólarhringa birtist í því að íslensku uppsjávarskipin sem hafa verið á kolmunnaveiðum að undanförnu eru sem óðast að tínast heim til að landa og gera klárt fyrir loðnuveiðar. Skip Samherja hf., Vilhelm Þorsteinsson EA, er að landa 2.500 tonnum af kolmunna í Neskaupðstað og skip Síldarvinnslunnar, Börkur NK, 2.300 tonnum á Seyðisfirði. Beitir NK er á landleið með rúm 1.700 tonn. Þriðja uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Barði NK, hefur hafið loðnuveiðar en ljóst er að nú verður hlé á kolmunnaveiðinni hjá skipunum þar til eftir loðnuvertíð. Hálfdán Hálfdánsson, skipstjóri á Berki NK segir í viðtali við vefsíðu Síldarvinnslunnar að hægst hafi á kolmunnaveiðinni eftir því sem leið á janúarmánuð.
„Nú verður allt græjað fyrir loðnuna, við erum með trollið klárt og tökum væntanlega nót líka. Menn gera sér vonir um að bætt verði við kvótann og framundan sé góð loðnuvertíð,“ segir Hálfdan.

 

 

Deila: