Elli fer í sinn síðasta túr

Deila:

Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Viðey RE, er nú í sinni síðustu veiðiferð og lýkur með því 52 ára sjómannsferli hans. Jóhannes Ellert, eða Elli eins og hann er alltaf kallaður, var fyrst á togaranum Þormóði goða RE sem Bæjarútgerð Reyjavíkur gerði út. Hann var síðan á Jóni Baldvinssyni RE og frá 1995 til 2017 var hann skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni RE. Hann tók síðan við Viðey RE þegar skipið kom nýtt til landsins árið 2017.
Í viðtali á vef Brims hf. segist Elli ekki kunna skýringar á aflasæld sinni í gegnum tíðina.

„Í fullri einlægni get ég svarað að ég hef ekki minnstu hugmynd um það. Ég hef aldrei haft það að markmiði að verða aflahæstur. Þú spyrð um galdurinn. Ef hann er til á annað borð hlýtur hann að felast í því að mér hefur alltaf fundist jafn gaman og spennandi að hefja nýja veiðiferð og mér þótti það vera fyrir rúmri hálfri öld. Þetta er alltaf ný áskorun. Ef það er til einhver galdur á bak við það, sem ég er að gera, þá gæti hann falist í þessu, þeim harðduglegu og góðu sjómönnum, sem ég hef unnið með og þeim frábæru fyrirtækjum sem ég hef starfað,“ segir Elli.

Sveitastrákur úr Kjós
Í viðtalinu segir Elli að það hafi ekki legið beint við að leggja sjómennskunna fyrir sig.  Að honum standa bændafjölskyldur í Kjósinni. Hann er frá Meðalfelli í Kjós, þar sem faðir hans er fæddur og uppalinn og móðir hans er frá Káranesi í Kjós. Örstutt er á milli bæjanna.
„Sennilega hafa bústörfin ekki heillað mig en einhvern veginn var það svo að sjórinn togaði í mig og sjómennskan lá beint við. Mér hefur alltaf liðið vel á sjó en ég verð sjötugur á árinu og finn það á mér að það er rétt að hætta á þessum tímapunkti.“
Elli var ekki búinn að vera lengi til sjós þegar hann fór yfir á togarann Jón Baldvinsson RE, sem BÚR gerði einnig út, með Snorra Friðrikssyni sem þá var skipstjóri. Hjá Snorra varð Elli síðar stýrimaður og hann tók svo við skipstjórn árið 1983.„Það má geta þess að þetta skip er enn gert út í Chile, þangað sem það var á sínum tíma selt, og gott ef það er ekki búið að breyta því tvisvar eða þrisvar sinnum,“ segir Elli.

Skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni RE í 22 ár
Árið 1995 tók Elli við skipstjórn á togaranum Ottó N. Þorlákssyni RE, sem BÚR, og síðar Grandi og HB Grandi, gerði út en með Ottó N. Þorláksson var Elli með allar götur fram til 2017 er Viðey RE kom ný í flotann.
„Það er ofsögum sagt að Ottó sé gott sjóskip. Hann er þungur en manni leið þokkalega um borð. Hins vegar voru það gífurleg viðbrigði að fara yfir Viðey. Það skip haggast varla í verstu vetrarveðum og eftir á að hyggja er það e.t.v. mín allra mesta gæfa á sjómennskuferlinum að fá að hætta á jafn flottu skipi og Viðey svo sannarlega er,“ segir Elli en hann segir að sjóhæfni Viðeyjar hafi komið vel í ljós í nýafstaðinni veiðiferð.
„Það var haugabræla allan túrinn utan hvað það dúraði tvisvar í nokkra klukkutíma í senn. Þrátt fyrir þetta fór skipið vel með áhöfnina og hefði maður ekki vitað betur þá hefði maður getað haldið að það væri nokkuð gott í sjóinn. Því miður vorum við sendir annan janúartúrinn okkar á miðin sunnanvert við Reykjanes eða í fjósið sem við köllum svo. Aflabrögðin voru léleg og veðrið enn verra. Ég gleymi öllum aflatölum um leið og hugsa aldrei um þær. Ég reyni bara að gera mitt besta hverju sinni,“ segir Elli í viðtalinu og þar segir að svo öllu sé til haga haldið þá var aflinn í túrnum um 80 tonn, mest djúpkarfi og gullkarfi.

Kvíði ekki steininum
Elli sest senn í svokallaðan helgan stein og hann segist ekki kvíða steininum eða þessum áfanga.
„Ég er feginn og finn mér örugglega eitthvað til að sýsla við. Það er alls ekki á stefnuskránni að lækka forgjöfina í golfi. Margt er mun verðugra. Í augnablikinu óska ég mér þess eins að við verðum sendir á Vestfjarðamið í þessari síðustu veiðiferð. Hafísinn hlýtur að vera horfinn af slóðinni og fiskurinn bíður.“

Deila: