Skemmtiferðaskipum hafi fjölgað of hratt

Deila:

Ferðamálastjóri segir að skoða þurfi betur ávinninginn af komu skemmtiferðaskipa hingað til lands. Vöxtur í komu skemmtiferðaskipa til landsins hafi verið of hraður og grípa þurfi í taumana þrátt fyrir að ávinningurinn sé mikill í smærri sveitarfélögum.

„Þessi litlu hagkerfi njóta mjög góðs af komu þessara ferðamannaskipa og afleiddri neyslu sem verður til á þessu svæði,“ sagði Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri í Morgunútvarpi á Rás 2.

Mengun frá skemmtiferðaskipum hefur verið í umræðunni í sumar. Ný skýrsla Transport and Environment sýnir að Ísland er á meðal þeirra 10 ríkja sem verða fyrir mestri mengun frá skemmtiferðaskipum.

Útlit er fyrir metfjölda skipa og um 70% fleiri skip en í fyrra.  Fram kemur í viðtalinu að á Akureyri sé gert ráð fyrir 272 skipum í sumar en 280 eru í áætlun í Faxaflóahöfnum.

Deila: