„Hef oft séð meiri loðnu en núna“

Deila:

„Núna væri óskastaðan að fá rólegt veður fram í miðjan mars. Það skiptir öllu máli í nótaveiðinni að fá gott veður,“ segir Birkir Hreinsson, skipstjóri á uppsjávarskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA sem nú er verið að ljúka löndun úr skipinu í Neskaupstað. Þetta var þriðji túrinn hjá Vilhelm á vertíðinni og aflinn um 2.250 tonn. Hann fékkst í fjórum köstum við Meðallandsbugt.

„Við erum að kasta á torfurnar á um 20 metra dýpi,“ segir Birkir. Hans tilfinning er sú að það sé ekki mikið magn af loðnu á ferðinni, sem fer þá saman við þær mælingar sem voru gerðar í aðdraganda vertíðarinnar.

„Ég hef oft séð meira af loðnu en þetta og líka séð hana ganga hraðar vestur með landinu en hún gerir núna. Fram að þessu hefur ekki verið mikill gönguhraði á henni en það getur átt eftir að breytast,“ segir Birkir.

Vilhelm Þorsteinsson kom til hafnar í Neskaupstað á sunnudag og var þá strax byrjað að landa og farminn. Loðnan fer öll til frystingar og er hún með um 16% hrognafyllingu. Loðna verður fryst á Japansmarkað upp að um 20% hrognafyllingu en þegar kemur fram yfir mánaðamótin hefst væntan vinnsla á loðnuhrognum. „Það skiptir ekki síst máli að fá góða tíð þegar við verðum komnir vestur fyrir land því sunnan og suðvestan brælurnar geta verið mjög erfiðar, sérstaklega í sjólaginu sem er við Reykjanesið,“ sagði Birkir sem reiknar með að halda á miðin á ný nú um hádegið.

Deila: